Það er alveg ótrúlegt hvað leynist af hæfileikaríku fólki vítt og breitt um fjórðunginn. Einn af þeim er Blábankastjórinn á Þingeyri, Arnar Sigurðsson, sem er reyndar í fæðingarorlofi núna en nýtir tímann vel. Hann hefur nefnilega stofnað óformlega skylmingadeild innan íþróttafélagsins Höfrungs á Þingeyri og þar eru haldnar æfingar í skylmingum tvisvar í viku. Allir sem eru 10 ára og eldri eru velkomnir á æfingarnar en engum er vísað frá vegna aldurs.
Arnar stundaði skylmingar stíft þegar hann var unglingur í Reykjavík enda var Skylmingafélag Reykjavíkur með æfingar í hverfinu hans. Hann varð Íslandsmeistari í íþróttinni árið 1999 og keppti tvisvar á heimsmeistaramótum unglinga. Röð tilviljana olli því að Nikolay Ivanov Mateev flutti til Íslands frá Búlgaríu og kenndi Arnari, en Nikolay er þjálfari í fremstu röð skylmingamanna.
„Þó ég væri löngu hættur þá var sonur minn alltaf svo spenntur fyrir skylmingum en var ekki orðinn nógu gamall til að byrja að æfa þegar við bjuggum í Reykjavík. Þá datt mér í hug að byrja að kenna hér á Þingeyri. Svo áttaði ég mig á því að það væri kannski ekki best að byrja með æfingar fyrir svona unga krakka,“ segir Arnar í samtali við BB.
Hann segir að hann hafi mögulega vantað eitthvað til að hvíla hugann, sem vilji hlaupa frá honum og ákvað því að bjóða upp á æfingar núna fyrir áramót og sjá svo til á næsta ári.
„Kosturinn við skylmingar er að það þarf ekki að stressa sig á því hversu margir mæta, ef það eru fleiri en einn þá er hægt að skylmast. Og ef það er hægt að gera einhverja krakka eða fullorðna spennta fyrir skylmingum, sem kannski fundu sig ekki í hefðbundnari íþróttum þá er það gaman,“ segir Arnar.
„Æfingarnar núna eru fyrir fullorðna og krakka niður í 10 ára, en engum er þó vísað frá vegna aldurs. Allur búnaður er á staðnum og það verður ókeypis núna fyrir áramót. Við æfum á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl 17:10 til 18 í íþróttahúsinu á Þingeyri. Opið í sundlauginni og gufu á eftir,“ segir Arnar og við hvetjum fólk á öllu svæðinu til að kíkja í íþróttahúsið á Þingeyri og kanna hvernig er að skylmast.
Sæbjörg
sfg@bb.is