Ísfirðingurinn Reynir Pétursson fékk í dag viðurkenningu á formannafundi GSÍ 2018 sem sjálfboðaliði ársins. Þetta kemur fram á vefnum Golf.is og þar var jafnframt talað við Kristin Þóri Kristjánsson, formann Golfklúbbs Ísafjarðar.
Viðurkenning sjálfboðaliði ársins var veitt í fyrsta sinn árið 2014 og er Reynir því fimmti einstaklingurinn sem fær sæmdarheitið í golfhreyfingunni.
„Reynir Pétursson er einstakur sem félagsmaður í Golfklúbbi Ísafjarðar. Við erum afar stolt að hafa Reyni í okkar röðum og að hann fái viðurkenningu sem sjálfboðaliði ársins,“ segir Kristinn Þórir Kristjánsson formaður GÍ í samtali við golf.is.
„Reynir er ávallt tilbúinn að aðstoða og verkefnin sem hann tekur að sér og sækist eru oft þau verkefni sem fáir vilja taka að sér. Þar má nefna að Reynir fer fremstur í flokki á veturna þegar brjóta þarf klaka af flötum Tungudalsvallar. Í nýrri vetraræfingaaðstöðu
GÍ hefur Reynir smíðað aðstöðu fyrir félagsmenn til að geyma golfsettin sín. Hann sér um að púttsvæðið sé opið og aðgengilegt fyrir félagsmenn,“ bætir Kristinn við.
Reynir er við góða heilsu og leikur hann golf fyrri part dagsins alla daga þegar viðrar til golfleiks á Ísafirði. Eftir að leik lýkur fer Reynir aftur upp á Tungudalsvöll, brettir upp ermar og fer í vinnugallann.
„Hann er algjör gullmoli fyrir okkur. Yfir sumartímann tekur að sér ýmis verkefni sem gera völlinn okkar enn betri. Þar má nefna að hann smíðar og lagar brýr, slær með slátturorfi svæði sem fáir myndu „nenna“ að fara yfir. Hann er lunkinn við að koma vatni sem safnast oft fyrir á vellinum. Oft þarf Reynir að moka og grafa í þeim verkefnum. Hann kvartar aldrei
og er alltaf tilbúinn að aðstoða vallarstarfsmenn GÍ. Við félagsmenn í Golfklúbbi Ísafjarðar erum afar heppinn að eiga félagsmanna á borð við Reyni,“ segir Kristinn Þórir Kristjánsson,
formaður GÍ.