Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar var lögð fram í síðustu viku og fór þá fram fyrri umræða um áætlunina. Í framsöguræðu Guðmundar Gunnarssonar, bæjarstjóra kom fram að markmiðið er að halda fjárfestingarstigi og viðhaldi í viðunandi horfi, en taka mið af efnahagshorfum og sýna aðgát. Gleðilegast sagði Guðmundur væri viðsnúningurinn á resktri sveitarfélagsins þar sem gert væri ráð fyrir 86 milljóna króna afgangi af A og B hluta en í fyrra hefði verið 50 milljónir króna halli.
Fjárfestingar eru áætlaðar verða 898 milljónir króna á næsta ári og verða stærstu verkefnin viðbygging við leikskólann Eyrarskjól, sem boðið verður í byrjun næsta árs og fjölnota íþróttahús á Torfnesi. Hlutur bæjarins í framkvæmdunum verður 574 milljónir króna, en ofanflóðavarnir og hafnarmannvirki eru að hluta til ríkisstyrkt. gert er ráð fyrir að selja íbúðir í Sindragötu 4a fyrir 200 milljónir króna.
Helstu forsendur áætlunarinnar eru að útsvarstekjur vaxi um 8% og verði 2.293 milljónir króna. Íbúum sveitarfélagsins fjölgi á næsta ári um 1% og verði þeir 3.864 í lok ársins. Fylgt er verðbólguspá þjóðhagsspár sem er 3,6%. En gagnvart gjaldskrám verður miðað við 2,7% verðbólgu. Fasteignaskattsprósenta verður óbreytt, en fasteignamat hækkar um 12,5% og mun það auka tekjur bæjarsjóðs. Vatnsskattur og holræsagjald haldast óbreytt á milli ára. Sorpgjöld hækka um 2,7%. Gert er ráð fyrir að laun hækki um 7-8 % og er þá innifalin fjölgun stöðugilda í tengslum við fjölgun íbúa og fjölgun barna á öllum skólastigum. Þá gætir í auknum launakostnaði áhrifa nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem tóku gildi þann 1. október. Áætlað er að viðhaldskostnaður verði 308 milljónir króna og verða stærstu viðhaldsverkefni ársins á eignum sveitarfélagsins á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri.
Á stjórnsýslu og fjármálasviði mun stöðugildum fjölga lítillega og verða 18. Gert er ráð fyrir nýju stöðugildi til að sinna tæknimálum og innkaupum. En þetta mun ekki leiða til aukins kostnaðar við resktur á bæjarskrifstofunum vegna hagræðingaraðgerða.