Það getur verið bras að fá tímann til að endast í allt það sem foreldrar og fólk í dag þarf að gera á hverjum degi. Það þarf að skutla, sækja, þrífa, sinna, elda, þvo og eiga svo gæðastundir en vera vel útlítandi á meðan. Heimilisstörf vilja verða út undan hjá sumum og þvottahaugarnir eiga það til að vaxa yfir höfuð heimilismeðlima. Hvað þá að það finnist tími til að skúra loft og veggi eins og stundum var gert hér áður. Og er kannski gert enn.
Hér verða mögulega birt húsráð fyrir önnum kafið fólk svona öðru hvoru. Eftir því sem tími gefst. Fyrsta húsráðið fjallar um sokka. Hvað verður um alla þessa einmana sokka? Hvert fara hinir? Eitt ráð við stökum sokkum er einfaldlega að ganga í ósamstæðu. Það er skemmtileg tilbreyting og lífgar upp á lífið. Annað ráð til þess að spara tímann sem fer í að flokka sokka er hreinlega bara að skella þeim öllum saman í smekklega körfu eftir. Þvott. Öllum sokkum fjölskyldunnar. Á þann hátt geta þeir fjölskyldumeðlimir sem hafa getu til, einfaldlega parað saman sína sokka eftir þörfum. Eða gengið í ósamstæðum. Allt er mögulegt þegar tíminn er örlítið meiri.