Þjóðskrá Íslands hefur birt upplýsingar um leiguverð eftir staðsetningu og stærðarflokkum fasteigna á landinu í október 2018. Sundurliðað er eftir stærð íbúða, frá stúdíóíbúðum upp í 4-5 herbergja íbúðir.
Upplýsingar um stúdíóíbúðirnar eru einungis af höfuðborgarsvæðinu. Leiguverðið er frá 3.794 kr pr fermetra upp í 6.654 kr. Er þetta langhæsta leiguverð sem Þjóðskráin gefur upplýsingar um.
Leiguverð þriggja herbergja íbúða er langhæst á höfuðborgarsvæðinu, frá 2.188 kr upp í 2.839 kr á hvern fermetra. Utan höfuðborgarsvæðsins er leiguverð þriggja herbergja íbúða frá 1.100 kr upp í 1.950 kr., lægst á Austurlandi og hæst á Akureyri. Á Vestfjörðum er leiguverðið næstlægst á landinu eða 1.235 kr á hvern fermetra.
Fjögurra til fimm herbergja íbúðir eru dýrastar í leigu á höfuðborgarsvæðinu frá 1.796 kr. upp í 2.721 kr. Utan þess er leiguverðið frá 885 kr. – 1.789 kr. Þar er leiguverðið lægst á Vestfjörðum.
Með nokkurri einföldun má segja að leiguverðið sé um 1.000 kr. hærra pr fermetra á höfuðborgarsvæðinu en utan þess fyrir 3 – 5 herbergja íbúðir.
Í leigugagnagrunni Þjóðskrár eru 670 samningar, sem þinglýst var í október 2018. Við úrvinnslu talnaupplýsinga um leiguverð var leigusamningum sem eru eldri en 60 daga við þinglýsingu, samningum þar sem herbergjafjöldi íbúða er ekki þekktur, samningum um félagslegar íbúðir o.fl. sleppt. Talnaupplýsingar um leiguverð í október 2018 eru því unnar upp úr 862 leigusamningum sem þinglýst var í október 2018.