HSV vill halda Unglingalandsmót 2021

Þessir flottu keppendur HSV tóku þátt í Unglingalandsmóti 2018. Vonandi þurfa þau ekki að ferðast langt árið 2021. Mynd: Arna Lára.

HSV hefur ákveðið að sækja um að Unglingalandsmót UMFÍ verði haldið í Ísafjarðarbæ árið 2021. Þetta var á ákveðið á ársþingi sambandsins síðastliðið vor og leitað eftir samþykki Ísafjarðarbæjar nú fyrir stuttu. „HSV hélt unglingalandsmót á Ísafirði árið 2003 sem tókst mjög vel og laðaði marga gesti á svæðið. Árið 2016 hélt HSV landsmót UMFÍ 50+ sem þótti einnig takast einstaklega vel,“ sagði Sigríður Lára framkvæmdastjóri HSV við BB.

Hún sagði jafnframt frá því að samkvæmt reglugerð um Unglingalandsmót UMFÍ skal keppa þar í glímu, sundi, frjálsum íþróttum, körfuknattleik og knattspyrnu. „Mótshaldari ákveður aðrar greinar með samþykki stjórnar UMFÍ og við miðum við að nota þá aðstöðu sem er fyrir hendi hér. Þannig er fyrirhugað að hægt verði að keppa í strandblaki, hjólreiðum, skotfimi, bogfimi, golf, pútti, hjólaskíðum, víðavangshlaupi, kajak/siglingum, upplestri, skák og boccia svo dæmi séu nefnd.“

Sigríður sagði að jafnvel þó við ættum kannski ekki bestu aðstöðuna að sumu leyti og það þyrfti eflaust að dytta að einhverju þá væri ekki ráðgert að fara í neinar stórframkvæmdir. „Við höfum margt annað sem við viljum leggja áherslu á. Hjólabrautir, víðavangshlaup, siglingaaðstöðu og fallega náttúru,“ sagði Sigríður.

Unglingalandsmót UMFÍ eru haldin á verslunarmannahelgi ár hvert. Mótin hafa vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og ungmenna ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá. Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Keppendur á unglingalandsmótum eru vel á þriðja þúsund og má búast við að gestafjöldi vegna mótsins fari yfir 10.000 manns. Það verður fjör í Ísafjarðarbæ og nágrenni ef svo vel tekst til að UMFÍ samþykki að halda Unglingalandsmótið fyrir vestan árið 2021.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA