Heimstyrjöldinni er lokið

Vopnahlésdagurinn 1918.

Fyrir réttum 100 árum lauk styrjöldinni miklu. Það var ellefta dag ellefta mánaðar ársins kl 11 fyrir hádegi sem vopnahléið tók gildi milli Vesturveldanna, Bretlands, Frakklands og Rússlands og Miðveldanna, bandalags Þýskalands og Austurríkis. Fljótlega varð Ottóman ríkið bandamaður Miðveldanna og síðar komu Bandaríkin til liðs við Vesturveldin.

Vopnahléið var upphaflega aðeins til 36 daga, en það teygðist á því. Friðarsamningarnir voru ekki undirritaðir fyrr en 28. júní 1919.

Stríðið umbylti ríkjum, Rússland, Ottóman veldið, Þýskaland og Austurríki-Ungverjaland, sem öll byggðu á ættarveldi,  leystust upp og í stað þeirra komu ríki byggð á þjóðerni. Landamæri sem höfðu varla haft daglega þýðingu urðu nú raunverulegur faratálmi og vegabréf og ríkisfang takmörkuðu för almennings.

Herstyrkur Vesturveldanna er talinn hafa verið um 43 milljónir manna og Miðveldanna um 25 milljónir manna. Mannfall á vígvellinum er talið hafa verið um 10 milljónir, fimm og hálf milljón manna úr herjum vesturveldanna og fjórar og hálf milljón manna Miðveldanna.

Fall almennra borgara er talið hafa verið um 8 milljónir manna og skiptist nokkuð jafnt á milli stríðsaðila. Særðir í hernaði eru taldir hafa verið 21 milljón manna, 13 milljónir bandamanna og 8 milljónir úr röðum Miðveldanna.

Mest varð mannfallið á vífvellinum í röðum Þjóðverja, 2 milljónir, Rússa 1,8 milljónir, Frakka 1,4 milljónir manna, Austurríki-Ungverjaland missti 1,2 milljónir manna og Bretar 0,9 milljón manna. Bandaríkjamenn misstu liðlega 100.000 mans.

Samtals eru fallnir og særðir 39 milljónir manna. Er furða að stríðið var kallað stríðið mikla. Menn höfðu aldrei áður séð annað eins og trúðu því að eftir þennan hrylling yrðu ekki fleiri stríð háð. Það stríð sem næst þessu komst var þrjátíu ára stríðið 1618-1648  sem háð var á þýskri grundu og 8 millónir manna féllu í því.

Stríðið hafði í för með sér hungsneyð og talið er að 5 – 10 milljónir manna hafi látist í Rússlandi á árinu 1921 af þeim völdum. Í upplausninni í Rússlandi eftir byltinguna 1917 voru miklar ofsóknir á hendur einstökum trúar- eða þjóðernishópum. Gyðingar urðu mjög fyrir barðinu á því og voru 60.000 – 200.000 Gyðingar drepnir. 1918 geisaði skæð inflúensa af stofnu H1N1 (spænska veikin) Af hennar völdum dóu um 50 milljónir manns.

Vonirnar um að bundið hefði verið endir á öll stríð til framtíðar litið rættust ekki eins og kunnugt er. Aðeins 21 ári síðar hófst önnur heimsstyrjöld, enn ægilegri.

 

 

DEILA