Til að fagna 100 ára afmælis fullveldisins ber Gylfi Ólafsson heilsuhagfræðingur gestur í Vísindaporti 30. nóvember saman heilsu og heilbrigðiskerfin 1918 og 2018 í erindi sem hann kallar “Heilbrigði í hundrað ár (og hvað níunda sinfónía Beethovens getur kennt okkur um kjarabaráttu heilbrigðisstétta)”. Í leiðinni notar hann hugtök á borð við tekjuteygni eftirspurnar og kostnaðarsjúkdóm Baumols til að varpa ljósi á undirliggjandi drifkrafta. Það síðarnefnda getur síðan hjálpað okkur við að skilja kjarabaráttu heilbrigðisstétta, en ekki fyrr en við höfum komið við á rakarastofunni og hlustað á níundu sinfóníu Beethovens.
Gylfi Ólafsson er uppalinn á Ísafirði. Hann er með meistaragráðu í hagfræði og hefur fengist við ráðgjöf, kennslu og rannsóknir í heilsuhagfræði á Íslandi og í Svíþjóð. Hann er nú forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13. Allir velkomnir.
Þetta er jafnframt síðasta Vísindaport ársins en erindaröðin hefst svo aftur 11. janúar 2019.