Á morgun verður haldið Restart síðdegi á Ísafirði. Þar getur fólk komið með biluðu raftækin sín, tölvur og síma og lært að gera við þau. Vinnustofan verður haldin í Fab Lab á Ísafirði og stendur á milli klukkan 17-20. Það eru sjálfboðaliðar Restart Iceland sem kenna fólki að gera við rafmagnstækin, tölvurnar eða símana sína. Komdu við og lærðu eitthvað nýtt, það kostar ekki neitt.
Á vinnustofum Restart komum við í veg fyrir ótímabæra sóun raftækjanna. Rafmagnsrusl er sú tegund sorps sem vex hvað hraðast í heiminum í dag. Til að mynda jókst rafmagnsrusl ( notuð rafeinda og rafmagnstæki) á jörðinni um 50% milli áranna 2009 og 2014.
Framleiðendur tækjanna eru í meira mæli að hanna úreldingu inn í vörurnar sínar til að láta þig kaupa nýja vöru. Raftæki ömmu og afa og pabba og mömmu voru ekki svona. Raftæki eins og ryksugur, hrærivélar, vöfflujárn og fleira entist áratugum saman. Það er því miður liðin tíð. Nú er ekki einu sinni hægt að láta gera við þessi tæki og þá enda þau í safngámum, en þar með er vandinn ekki leystur. Dýrt er að vinna úr fjölbreyttu rafmagnsrusli og oft er gífurleg mengun af slíkri endurvinnslu.
Okkur er nóg boðið. Við þurfum að læra að laga okkar eigin tæki og lengja þar með líftíma þeirra og vernda þannig umhverfið. Vertu með, komdu á næstu vinnustofu og miðlaðu þekkingu eða lærðu eitthvað nýtt.
Sæbjörg
sfg@bb.is