Við upphaf kirkjuþings á laugardag
, tók Drífa Hjartardóttir við stöðu forseta kirkjuþings. Með því verður hún fyrst kvenna til að gegna þeirri stöðu, en kirkjuþing er nú haldið í 57. sinn. Hún tekur við af Magnúsi E. Kristjánssyni sem bauð ekki kost á sér aftur, eftir fjögur og hálft ár sem sitjandi forseti.
„Ég er að taka við mjög virðingarverðu hlutverki. Forverar mínir hafa verið framúrskarandi menn,“ segir Drífa.
„Ég vil þakka Magnúsi fyrir hans miklu og góðu störf, og ég hef átt gott samstarf með honum í forsætisnefnd.“
Drífa segist vera spennt fyrir hlutverkinu og að það séu tímamót að kona skuli vera kosin forseti kirkjuþings.
„Ég tel þetta vera til marks um breytta tíma.“
Á kirkjuþingi sitja 29 fulltrúar, 12 prestar sem valdir eru af preststéttinni og 17 leikmenn kosnir af sóknarnefndum.
Við lok þingsins í næstu viku fer fram kosning um nýtt kirkjuráð sem mun sitja næstu fjögur árin.
Meðal þess sem er til umræðu á þinginu er sameining prestakalla og endurskoðun á sambandi ríkis og kirkju.
„Helsta áskorunin hjá okkur eru samningar ríkis og kirkju, að mínu mati þá verða töluverðar breytingar á og mikilvægt að við vinnum vel úr þeim málum,“ segir Drífa. „Það eru ákveðin tækifæri til þess að við vinnum málin eftir okkar höfði og setjum okkar mark á framtíðina. Kirkjan má aldrei staðna, hún verður alltaf að horfa til framtíðar. Heimurinn tekur stöðugum breytingum og við verðum að fylgjast með tímanum.
Drífa segist líta framtíðina björtum augum og að í umræðunni um kirkjuna gleymist oft að nefna það sem mestu máli skiptir: fólkið.
„Sem dæmi þá var ég í fjölskyldu og barnamessu í Vídalínskirkju fyrr í dag og það var svo frábært að sjá allt þetta fólk fylla kirkjuna af söng og gleði. Kirkjan má ekki alltaf vera í vörn, hún þarf að vera í sókn og láta vita hvað er að gerast og hvað er í boði. Þó það hafi blásið á móti síðustu ár þá mun birta yfir og við munum ná okkur úr þessum öldudal.
En það þýðir að við þurfum að vinna að heilindum og sjá til þess að starf okkar sé gegnsætt.“