Aðventan er dásamlegur tími. Þá lýsa jólaljósin upp skammdegið sem annars er svo dimmt og gefur því léttari svip. Eins og margir á mínum aldri, er ég ekki alin upp við jólaskraut á sjálfri aðventunni utan aðventukransinn en hins vegar var jólabakstur í hávegum hafður og bakaði mamma á annan tug sorta af smákökum sem settar voru í dunka niður í köldugeymslu og kirfilega límt fyrir lokin þar til á aðfangadag . Við borðum einfaldan mat á aðventunni, ekkert nammi, ekkert gos eða kökur og sunnudagslambalærið fékk frí. Ég held að þessi einfaldleiki aðventunnar hafi gert jólahátíðina enn stórkostlegri fyrir vikið. Ég ólst upp við að húsið var skreytt á Þorláksmessu, stofunni lokað og inn í hana fórum við ekki fyrr en klukkan sex á aðfangadag.
Mínar hefðir eru eilítið ólíkar þeim sem ég ólst upp við enda breytast tímarnir og konurnar með. Ég reyni samt að halda aðeins í það að vera ekki búin að smakka á öllum jólamatnum á aðventunni. Lengi vel var það hluti jólaundirbúningsins að föndra jólakort. Ég gerði margar tegundir og reyndi að hafa ólík þemu ár frá ári. Því miður hefur jólakortaföndurgerð ekki verið í forgangi hjá mér síðastliðin ár en ég held þó enn í þann sið að senda jólakort þrátt fyrir að það sé ekki svo mjög umhverfisvænt og rafrænar kveðjur að taka yfir. Ég skreyti líka snemma og vil njóta jólaskrautsins og jólaljósanna. Við erum alltaf með lifandi jólatré og undanfarin ár höfum við sett það upp um leið og Björgunarsveitin er farin að selja þau. Synir mínir sjá algjörlega um að skreyta jólatréð en ég fæ að sjá um jólatónlistina á meðan.
Við reynum að hafa aðventuna eins afslappaða og hægt er. Hefðbundið er að mála piparkökur, setja saman piparkökuhús, lesa jólasögur, horfa á eins og eina jólamynd og helst að fara á jólatónleika. Ég hef haldið jól erlendis og kynntist meðal annars jólamörkuðum þar sem ég hef búið. Þó svo að það sé ekki hluti af almennum undirbúningi á okkar heimili að skerpa til útlanda á aðventunni þá finnst mér eitthvað notalegt við það að vera á þýskum jólamarkaði innan um aragrúa af fólki, sötrandi heitan drykk og finna lyktina af ristuðum möndlum.
Á aðfangadag förum við í sund og borðum pylsu í sjopunni í Bolungarvík í hádeginu. Biðin eftir jólunum er börnunum löng en þessi hefð okkar hefur stytt biðina umtalsvert.
Ég skora á Katrínu Maríu Gísladóttur að segja okkur frá því hvernig hún undirbýr jólin hjá sér…
Unnur Björk Arnfjörð