Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fela Landspítalanum að annast rekstur sjúkrahótelsins við Hringbraut, tímabundið til tveggja ára. Spítalinn hefur farið þessa á leit við velferðarráðuneytið, en áður hafði verið miðað við að Landspítalanum yrði falið að bjóða reksturinn út í samvinnu við Ríkiskaup.
Opnun sjúkrahótelsins hefur dregist á langinn vegna margvíslegra tafa við framkvæmdir og enn liggur ekki fyrir nákvæmlega hvenær hægt verður að hefja reksturinn. Þessar tafir hafa jafnframt staðið í vegi fyrir því að ráðist hafi verið í áformað útboð rekstrarins. Svandís segir ákvörðun sína um að fela Landspítala þetta verkefni ekki síst byggja á því að það sé málinu til framdráttar að koma í veg fyrir mögulegar tafir á opnun hótelsins þegar þar að kemur vegna óvissu um rekstur þess: „Ég treysti Landspítalanum vel til að annast þetta verkefni og að undir hans stjórn verði allt sem lýtur að rekstrinum til reiðu þegar framkvæmdum lýkur, sem ég vona svo sannarlega að verði fljótlega.“
Eins og áður hefur komið fram verður sjúkrahótelið ekki ætlað sjúklingum sem eru innritaðir á Landspítalanum, heldur er það ætlað til að mæta þörfum fólks sem þarf heilsu sinnar vegna að dvelja fjarri heimili sínu vegna rannsókna, meðferðar og eftirlits og einnig þá sem geta ekki dvalið heima tímabundið heilsu sinnar vegna. Sjúkrahótelið er því meðal annars til þess ætlað að stuðla að bættri aðstöðu fólks á landsbyggðinni sem þarf að sækja sér heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð en einnig er horft til þess að það muni draga úr þörf fyrir sjúkrahúsinnlagnir og enn fremur að flýta fyrir útskrift sjúklinga af Landspítalanum, sem geta þá dvalið tímabundið á sjúkrahótelinu þar til þeir verða færir um að búa heima hjá sér.