Nú er innan við ár þangað til slegið verður í gegn í framkvæmdum við Dýrarfjarðargöng. Þá erum við farin að eygja gríðarlega samgöngubót á Vestfjörðum. Heilsárssamgöngur milli norður- og suðursvæðis er að verða að veruleika. Það verða liðnir tveir áratugir af þessari öld þegar við sjáum þetta raungerast. Ótrúlegt! En gott og vel við fögnum þessu ákaft.
Fyrir liggur að farið verður í uppbyggingu á Dynjandisheiðinni meðfram og í framhaldi á framkvæmdum við Dýrafjarðargöng. Mörgum finnst þær framkvæmdir fái ekki nægjanlega áherslu í framlagðri samgönguáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi. Það má taka undir þær áhyggjur og er það augljóst að hraða þarf eins og hægt er uppbyggingu heiðarinnar.
Samvinnuleið í vegamálum
Nokkuð hefur verið talað um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja. Til að hraða samgönguframkvæmdum er unnið að útfærslu gjaldtökuleiða sem nýtist á ákveðnum mannvirkjum. Slík gjaldtaka á einstaka mannvirkjum býr til svigrúm í samgönguáætlun og því hægt að ráðast fyrr í einstök verkefni en gert er ráð fyrir í áætluninni. Fyrr í haust var hætt gjaldtöku við Hvalfjarðargöng en hún er dæmi um góða samvinnuleið í úrbótum á samgöngumálum. Til þessa er horft og vonir eru bundnar við að framkvæmdir við Dynjandisheiðina verði hægt að þoka fram um leið og samvinnuleiðir í vegamálum verða að raunveruleika.
Vetrarþjónusta
Vetrarþjónusta á Dynjandisheiði fylgir nú G- reglu Vegagerðarinnar. Samkvæmt henni er mokað tvisvar í viku, haust og vor, á meðan snjólétt er en ekki mokað frá 1. nóv. til 20. mars. Þessi regla endurspeglar þá órjúfanlegu leið sem þær systur Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðar byggja. Aðstæður á Hrafnseyrarheiðinni hafa stýrt þessari reglu, eðlilega.
Nú skilja leiðir og sá erfiði fjallvegur yfir Hrafnseyrarheiðina verður ekki til staðar eftir opnun ganga og þá er eðlilegt að vetrarþjónusta á Dynjandisheiði verði endurskoðuð. Sá þrýstingur er þegar komin fram og ekkert sem bendir til þess að svo verði ekki. Vetrarþjónusta þarf ekki að haldast í hendur við framkvæmdalok við heiðina og jafnvel nauðsynleg að auka þjónustuna strax til að fá reynslu hvernig eigi að festa hana í sessi í framtíðinni.
Það er ekkert sem staðfestir þann orðróm sem virðist vera uppi að ekki verði farið í aukna vetrarþjónustu á Dynjandisheiðinni eftir opnun Dýrafjarðarganga. Hvorki í samgönguáætlun eða í umræðu um hana eða endurspeglar það áætlun Vegagerðarinnar né stjórnvalda.
Áfram er hægt að fagna opnun Dýrafjarðarganga og horfa fram á heilsárssamgöngur milli norður og suðursvæðis Vestfjarða eftir árið 2020.
Halla Signý Kristjánsdóttir 7. þingmaður Norðvesturkjördæmis