Þann 21. nóvember síðastliðinn var mál höfðað gegn Lindu Kristínu Ernudóttur í Héraðsdómi Vestfjarða. Henni var ætlað að hafa stolið fjórum vörum úr Lyfju á Ísafirði í maí 2018, að verðmæti 4904 krónur sem varðar við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess var krafist að ákærða yrði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í dómnum segir að Linda sé dæmd: „fyrir þjófnað, með því að hafa, þriðjudaginn 8. maí 2018, stolið fjórum vörum úr verslun Lyfju hf. á Ísafirði, Pollgötu 4, nánar tiltekið JCH cold rose kabuki meikbursta, insight restructurizing hárvöru, UBU meiksvömpum og hárbursta, alls að fjárhæð kr. 4.904, með því að taka vörurnar úr hillum verslunarinnar og setja í veski sitt og úlpuvasa, og ganga út úr versluninni, án þess að greiða fyrir vörurnar.
Framkvæmdastjóri Lyfju hf. gerði þá kröfu fyrir hönd fyrirtækisins að hin ákærða greiddi kröfuhafa skaðabætur samtals að fjárhæð kr. 4.904, auk vaxta, frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað og þar til mánuður væri liðinn frá birtingu kröfunnar. Og síðan dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags. Þá var krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Linda Kristín neitaði sök og krafðist sýknu og frávísunar bótakröfu auk þess að allur sakarkostnaður þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns yrði greidd úr ríkissjóði. Upptökur úr eftirlitsmyndavélum verslunarinnar sýndu þó að ákærða hefði tekið fjórar vörur úr versluninni og hún þekkti sig á myndunum.
Ákærða kom ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins en vitni frá Lyfju á Ísafirði gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvaðst hafa verið við störf 8. maí, þegar ákærða kom í verslunina. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið strax eftir ákærðu en hún hefði haldið sig neðarlega í hillum verslunarinnar. Vitnið kvað samstarfskonu sína strax hafa grunað ákærðu um þjófnað og því hefði verið óskað eftir gögnum frá öryggismiðstöð. Farið hefði verið um verslunina til að kanna hvort vörur hefðu verið teknar úr umbúðum eða færðar milli deilda í hillum eða hvort þær hefðu legið á gólfi, en svo hefði ekki verið. Þá hefði verið sannreynt með aðstoð öryggismiðstöðvar hvaða vörur vantaði í verslunina, en vörurnar sem ákærða hefði tekið hefðu verið ódýrar vörur sem ekki hefðu verið sérstaklega þjófamerktar.
Framlagðar upptökur úr eftirlitsmyndavélum ná yfir þær 25 mínútur sem ákærða dvaldi í versluninni. Að mati dómsins fer ekki milli mála að á þeim myndum má sjá ákærðu taka vörur úr hillum verslunarinnar, sem í tvígang hverfa úr höndum hennar þegar ákærða er í hvarfi frá myndvél og í önnur tvö skipti sést ákærða setja vörur í veski sitt. Þá sést í mynd að ákærða kom á kassa en greiddi ekki fyrir neinar vörur né skilaði vörum. Þá hefur vitni borið að leitað hafi verið í versluninni eftir að ákærða fór þaðan en engar vörur hefðu verið færðar úr stað í versluninni. Að framansögðu virtu og með vísan til rannsóknargagna málsins þykir komin fram lögfull sönnun þess að ákærða hafi gerst sek.
Við ákvörðun refsingar var til þess litið að ákærða var þarna fundin sek í áttunda sinn fyrir þjófnaðarbrot. Dómurinn leit því svo á að ákærða hefði lagt slík brot í vana sinn í skilningi 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var einnig litið til þess að ákærðu var í maí 2014 veitt reynslulausn í eitt ár á eftirstöðvum refsingar fyrir þjófnaðarbrot. Hafði það brot því ítrekunaráhrif og með hliðsjón af 255. gr. alm. hegningarlaga þótti refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði, en að teknu tilliti til verðmætis hins stolna þótti rétt að fresta fullnustu tveggja mánaða þeirrar refsingar og að sá hluti hennar falli niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærða almennt skilorð.
Auk fangelsisvistar var Linda Kristín Ernudóttir einnig dæmd til þess að greiða Lyfju 4904 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum auk 247.820 króna í þóknun til skipaðs verjanda síns, Kristjáns Ásvaldssonar.
Sæbjörg
sfg@bb.is