Á dögunum auglýsti Háskólasetur Vestfjarða laust til umsóknar tímabundið starf verkefnastjóra meistaranáms. Sextán sóttu um stöðuna þar af átta búsettir utan Vestfjarða en frá þessu segir á heimsíðu þeirra. Auglýsingin var nokkuð opin og uppfylltu allir umsækjendur settar lágmarkskröfur en valnefnd bauð sjö umsækjendum í viðtal. Sérstaklega var leitað eftir því hvort umsækjendur væru til þess fallnir að taka yfir verkefni sem nú eru hjá fagstjóra meistaranáms ásamt því að sinna verkefnum sem tengjast auglýsingu og kynningu námsleiða Háskólaseturs. Sumir umsækjendur tóku fram að þeir vildu frekar hlutastarf en fullt starf.
Valnefnd ákvað að bjóða, Sigurði Halldóri Árnasyni, doktors kandídat, og Astrid Fehling, verkefnastjóra hlutastörf sem þau hafa bæði þegið.
Sigurður Halldór Árnason er vist- og þróunarfræðingur og doktors kandídat við Háskóla Íslands og Háskólann á Hólum. Frá 2017 hefur Sigurður sinnt kennslu í rannsóknaraðferðum og tölfræði við Haf- og strandsvæðastjórnunarnám Háskólaseturs Vestfjarða. Hann hefur einnig starfað sem aðstoðarkennari við Háskóla Íslands þar sem hann kenndi plöntulífeðlisfræði auk þess að starfa á plöntuerfðarannsóknastofu Háskóla Íslands. Sigurður hefur tekið þátt í fjölda ráðstefna og flutt fyrirlestra á sviði líffræði á undanförnum árum. Sigurður er með meistaragráðu í stofnerfðafræði frá Háskóla Íslands og BS gráðu í vist-og þróunarfræði frá Háskólanum í Havaí þar sem hann vann einnig hjá The Center for Conservation, Research, and Training. Hann kláraði Menntaskóla í New Jersey í Bandaríkjunum en er fæddur á Ísafirði og stundaði hér nám til átta ára aldurs.
Astrid Fehling er landfræðingur með meistaragráðu í umhverfisstjórnun. Hún fæddist í Hamborg í Þýskalandi en kom til Íslands árið 2010 sem nemendi í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið í hálft ár og skrifaði lokaritgerð sína hér á landi. Hún hefur verið hluti af kennarateymi Háskólaseturs Vestfjarða frá 2011 og kennir áfangann Landupplýsingakerfi GIS (Geographical Information Systems). Í janúar 2018 hóf Astrid störf sem verkefnastjóri við Háskólasetrið í afleysingum og tók yfir umsjón með Þróunarsjóði innflytjendamála sem og umsýslu gestafjölskyldna SIT, auk þess að skipuleggja ráðstefnuna CoaastGIS 2018 sem fram fór í september síðastliðnum. Astrid mun áfram gegna þessum störfum en mun frá janúar 2019 taka við öðrum verkefnum í tengslum við nýja starfið.
Við óskum þeim að sjálfsögðu til hamingju með störfin og Háskólasetrinu með þetta flotta starfsfólk.
Sæbjörg
sfg@bb.is