ASÍ: þjónustugjöld bankanna hækka þrátt fyrir hagræðingu

Frá höfuðstöðvum Arionbanka.

Úttekt verðlagseftirlits ASÍ á verðskrám bankanna sýnir að þjónustugjöld hafa hækkað langt umfram vísitölu neysluverðs þrátt fyrir mikla hagræðingu í bankakerfinu á síðustu árum.

Dýrt er að sækja sér þjónustu í útibú eða í símaver en gjöld tengd slíkri þjónustu hafa hækkað mikið á síðustu árum auk þess sem ýmsir þjónustuliðir hafa bæst við sem ekki voru til áður.

Þjónustugjöld banka og kostnaður við greiðslukort hefur hækkað langt um fram vísitölu neysluverðs þrátt fyrir mikla hagræðingu í bankageiranum á síðustu árum með mikilli fækkun útibúa og starfsmanna.

Á síðustu þremur árum (okt 2015- okt 2018) hefur bankakostnaður hækkað um 11% og kostnaður við greiðslukort um 19% en á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 7%.

Frá árinu 2008 hefur útibúum bankanna fækkað úr 146 í 74 og starfsmönnum fækkað úr 4.326 í 2.850 (heimild) eða um tæplega 1500. Viðskiptavinir geta í dag framkvæmt flest alla þjónustu rafrænt án beinnar aðkomu starfsfólks. Þessar tækniframfarir hafa gert bönkunum kleift að hagræða síðustu ár.

Verðalgseftirlit ASÍ hvetur neytendur til að skoða hvernig þeir geta lækkað bankakostnað sinn en í mörgum tilfellum má komast hjá kostnaði með því að framkvæma þjónustuna sjálfur á netinu og forðast að fara í útbúin eða hringja í bankana.

Úttekt ASÍ  nær til þjónustugjalda stærstu viðskiptabankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka. Við gerð þessarar úttektar var stuðst við gildandi verðskrár bankanna auk eldri verðskráa sem voru í gildi haustið 2015. Einnig var stuðst við upplýsingar frá starfsmönnum bankanna.

 

DEILA