Drífa Snædal, foreti ASÍ segir í pistli sínum á föstudaginn að stokkað hafi verið upp í nefndaskipan ASÍ og sérstök húsnæðisnefnd hafi verið mynduð, sem á að vinna náið með sérfræðingum Así um útfærslu á tillögum til lengri og skemmri tíma.
Þá segir forseti ASÍ að húsnæðismál verði á oddinum í komandi kjarasamningum. Í pistlinum segir Drífa:
„Húsnæðismálin voru líka rædd á samráðsfundi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins á þriðjudaginn og er það vonandi sameiginlegur skilningur allra að ekki verður gengið frá kjarasamningum nema húsnæðismálin verði tekin föstum tökum. Það vantar 8.000 íbúðir
núna og skipulag til framtíðar í þessum málum þannig að markaðsaðilar geti ekki stýrt framboði hverju sinni heldur sé tekið mið af raunverulegri þörf fólks sem vantar húsnæði. Markaðslögmálin munu aldrei leysa húsnæðisvandann heldur er það félagslegt mál að fólk hafi húsnæði á viðráðanlegu verði. Auk þess er afar brýnt að tryggja hagsmuni leigjenda þannig að almenningur sé ekki ofurseldur óöruggum leigumarkaði og leigusölum sem hækka leiguna eftir hentisemi.“