Af hverju flutti ég vestur?

Lilja Sigurðardóttir ásamt dóttur sinni.

Ég gleymi því aldrei þegar ég kom í fyrsta skipti á Vestfirðina, 27. desember 2007. Ég hafði hitt strák, ca tveimur mánuðum áður sem er frá Patreksfirði og hann bauð mér að koma og eyða áramótunum með sér, reyndar eftir smá þrýsting frá mér.

Ég dreif mig vestur með frænda hans og vá fegurðin sem tók á móti mér!

Það var yndislegt vetrarveður, snjóþekja yfir öllu og fólk að leika sér á snjósleðum upp á Kleifaheiði. Þegar við keyrðum svo niður Kleifaheiðina þá tók þetta frábæra útsýni við og því mun ég seint gleyma.

Ég átti frábær áramót á Patró sem urðu til þess að ég og þessi sæti strákur urðum par og giftum okkur síðan sumarið 2016. Hann heitir Gunnar Sean Eggertsson og er Vélfræðingur. Hann rekur eigið Vélaverkstæði sem hann stofnaði vorið 2013, það hefur verið nóg að gera hjá honum frá fyrsta degi og hefur hann átt í erfiðleikum með að sinna öllum þeim verkefnum sem honum bjóðast vegna manneklu.

Eftir þessi örlagaríku áramót vorum við mikið á Patró í fríum. Það var alltaf gaman að koma vestur og mér leið vel hér. Ég sá það samt ekki fyrir mér á þessum tíma að við myndum flytja og var því ekkert allt of sátt þegar kærastinn ákvað að stofna útgerð á Patró með móður sinni og bróður. Það var fljótt að breytast eftir því sem ég eyddi meiri tíma hér. Við keyptum okkur íbúð 2011 og gerðum hana upp og þar leið mér mjög vel og vorið 2013 tókum við þá ákvörðun að prófa að flytja alveg.

Við vorum þá búin að eignast eitt barn og ég var að klára hjúkrunarfræði frá HÍ. Við vorum mikið á ferðinni fyrsta árið eftir að við fluttum þar sem ég var að klára verknámið.

Ég var fljót að komast inn í samfélagið, þekkti til flestra á mínum aldri og kynntist þeim enn betur eftir að við fluttum alveg. Á þeim tíma voru líka fleiri að flytja vestur og samfélagið því stækkandi.

Við vorum nokkuð margar í fæðingarorlofi og vorum duglegar að hittast með börnin. Ég hafði upplifað mig einmanna í Reykjavík eftir að við áttum stelpuna okkar en það upplifði ég ekki hér. Hérna voru mun fleiri í kringum okkur á sama stað og við, að stofna fjölskyldu. Það er líka svo allt öðruvísi að búa út á landi, þú ert ekkert að skjótast í Ikea eða Kringluna en þú skýst í kaffi til vina og það er það sem ég elska við að búa úti á landi. Þú þarft ekki að plana hittinig með viku fyrirvara heldur hringir þú bara og athugar hvort fólk sé heima þegar þig langar í félagsskap og ef það er ekki heima þá hringir þú bara í næstu vinkonu.

Ég er sjálf úr Skagafirði, bjó í sveit fyrstu 9 æviárin og síðan í Varmahlíð (ca 100 manna þorp) til 17 ára aldurs en þá flutti ég í höfuðborgina þar sem ég kláraði stúdent og fór í háskóla þannig ég er vön landsbyggðalífi sem á vel við mig.

Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur 2015 og fór að vinna þá um haustið á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði. Þar komst ég enn betur inn í samfélagið. Það er nóg að gera fyrir hjúkrunarfræðinga og mjög mikil reynsla sem ég hef öðlast við þá vinnu hér.

Hér er líka alltaf nóg um að vera. Við erum með flott bíó sem Lions rekur og eru sýningar minnst 2x í viku, það eru flottir veitingastaðir hér á sunnanverðum vestfjörðum, góðar

sundlaugar og vaxandi íþróttastarf fyrir börnin. Slysavarnardeildin þar sem ég er meðlimur í er mjög virk, ásamt kvenfélaginu, Lion og fleiri samtökum. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Í dag eigum við tvö börn, 4ja og 6 ára, og eitt á leiðinni. Búum í einbýlishúsi sem tengdamóðir mín heitin átti og erum búin að gera að okkar og hér líður okkur vel. Ég er búin að búa hér í rúmlega 5 ár og gæti ekki hugsað mér að flytja héðan.

Mér líkar vel í vinnunni, ég á yndislega vini hérna og börnunum líður vel því frelsið er auðvitað þvílíkt.

Við erum samt dugleg að fara suður til Reykjavíkur og hitta vini og fjölskyldu þar og mér finnst sambandið við vinkonur mínar í Rvk alls ekki síðra eftir að ég flutti þótt ég missi auðvitað af einstaka hitting.

Ég mæli með því við alla sem langar að prófa eitthvað nýtt að prófa að flytja út á land.

Ég skora næst á svilkonu mína hana Gerði Björk Sveinsdóttur.

Lilja Sigurðardóttir

DEILA