Aðalfundur Snjáfjallaseturs 2018 var haldinn í Gamla Kaffihúsinu Drafnarfelli 18 í Reykjavík laugardaginn 24. nóvember. Mætt: Ólafur J. Engilbertsson, Ingibjörg Kjartansdóttir, Þórir H. Óskarsson, Sigtryggur Rósmar Eyþórsson, Þorbjörg Guðmundsdóttir, Þórir Kjartansson og Friðbjört Jensdóttir.
Ólafur J. Engilbertsson formaður stjórnar las upp skýrslu stjórnar Snjáfjallaseturs vegna ársins 2017. Uppbyggingarsjóður Vestfjarða veitti 2017 Snjáfjallasetri vilyrði fyrir samtals 3.600.000, 3ja ára framlag í samstarfi við Steinshús og Sögumiðlun. Skilti um Snæfjallahringinn og Drangajökul voru sett upp vorið 2017 ásamt söguskilti við kirkjugarðinn á Snæfjöllum. Jósep Rósinkarsson stjórnarmaður í Snjáfjallasetri og einn af síðustu ábúendum á Snæfjöllum fór í ferðina og staðsetti skiltið í samráði við Guðmund Rafn Sigurðsson framkvæmdastjóra kirkjugarðaráðs. Séra Magnús Erlingsson blessaði síðan skiltið þegar það var komið upp í gamla kirkjugarðinum á Snæfjöllum.
Ársreikningar voru lagðir fram, félagsgjöld voru 72.500. Óráðstafað eigið fé 5.968.507 þann fyrsta janúar 2017. Þar af er skilgreindur hlutur í Dalbæ 5.000.000. Ársreikningar voru samþykktir samhljóða. Lagabreytingar voru engar. Ákvörðun félagsgjalds: Ákveðið var að hækka félagsgjald úr kr. 3000 í 4.000.
Stjórn Snjáfjallaseturs var kosin áfram ásamt skoðunarmönnum og varamönnum. Ólafur J. Engilbertsson er formaður og auk hans eru í stjórn Ingibjörg Kjartansdóttir, Jófríður Hanna Sigfúsdóttir, Þórir H. Óskarsson og Friðbjört Jensdóttir. Varamenn eru Jósep Rósinkarsson og Jón Sigurður Norðkvist. Skoðunarmenn Edda María Hagalín og Þórhildur Þórisdóttir.
Ólafur las upp skýrslu um stöðu og starfsemi Snjáfjallaseturs 2018 og Ingibjörg Kjartansdóttir sagði frá stöðu Félags um Dalbæ. Rætt var um framkvæmdir í Dalbæ nú í sumar, en viðgerðir hófust á vegum Höfða ehf á Hólmavík í byrjun júlí. Jón Gísli Jónsson og Grétar Matthíasson stóðu sig vel í viðgerðunum og klæddu miðhúsið og þak þess og auk þess hlið stærra hússins. Þeir komu fjórum sinnum, voru seinast í byrjun október. Viðgerðirnar hingað til hafa kostað um 1.6 milljónir. Í lok júlí voru tónleikar Duo Islandica, Guðrúnar Jóhönnu Ólafsdóttur söngkonu og Francisco Javier Jauregui gítarleikara í Dalbæ. Fólk lét það ekki á sig fá þó bryggjan í Bæjum væri hálffallin að mæta á tónleikana þar sem flutt voru Kaldalónslög og basknesk og spænsk þjóðlög. Ingibjörg Kjartansdóttir sá um kaffisölu. Tónleikagestir héldu síðan á Lyngholt þar sem Engilbert S. Ingvarsson sagði frá lífinu á Snæfjallaströnd fyrr á tímum og sýndi muni og svo var tekið lagið í gömlu skólastofunni og í Unaðsdalskirkju. Framlag fékkst til tónleikanna frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. Innkoma á reikning Félags um Dalbæ vegna gistingar og kaffisölu var rúmar 470.000 yfir sumarið.
Verkefni framundan og önnur mál.
Snjáfjallasetur stefnir að því að bjóða upp á dagskrá í Dalbæ á Snæfjallaströnd í lok júlí á 100 ára ártíð Ásgeirs Ingvarssonar tónlistarmanns, myndlistarmanns og textahöfundar. Þar verða tónlistarflutningur, upplestur, erindi og sýning á myndverkum Ásgeirs. Sótt er um til Uppbyggingarsjóðs vegna verkefnisins. Snjáfjallasetur áformar einnig útgáfu gönguleiðakorts um Snæfjallahringinn. Gönguleiðakortið verður aðgengilegt með GPS hnitum á vef Snjáfjallaseturs og mun það auka mjög öryggi fólks sem er á ferð um svæðið. Sótt er um til Samfélagssjóðs Landsvirkjunar vegna gönguleiðakortsins.
Snjáfjallasetur og Átthagafélag Snæfjallahrepps sendu síðastliðið haust erindi vegna bryggjunnar í Bæjum til Sigurðar Áss Grétarssonar framkvæmdastjóra siglingasviðs hjá Vegagerðinni. Lagt var fram svarbréf frá Sigurði þar sem kemur fram að fjármagn skorti til að fara í viðgerð en vegna mikilvægis bryggjunnar muni reynt að finna ásættanlega lausn. Var ákveðið að halda málinu vakandi gagnvart Vegagerðinni og fylgja því eftir.
Snjáfjallasetur leitar að aðila til að sjá um rekstur ferðaþjónustu í Dalbæ á Snæfjallaströnd næsta sumar.