Að fá rýting í bakið

Jóhannes Haraldsson.

Þó ég búi ekki lengur í Reykhólahreppi en sé þar bara alltaf, þá líður mér þannig að ég verði að biðjast afsökunar. Verst að ég veit varla á hverju eða fyrir hönd hvers. Framkoman við nágranna og samherja nú upp á síðkastið er slík að engu tali tekur.

 

Eftir 15 ára baráttu við kerfið og utanaðkomandi andstöðu er ein leið tilbúin til framkvæmda. Leiðin sem meðal annara hreppsnefndir Reykhólahrepps hafa barist fyrir öll þessi 15 ár, á öllum vígstöðvum. Allt er rannsakað í þaula, ekkert finnst sem snertir náttúruna og ætti að valda því að óverjandi sé að hefja framkvæmdir. Skóræktarfélögin sjá enga ástæðu til að legjast gegn lagningu vegar um vestanverðan Þorskafjörð, búið er að rannsaka botndýralíf í Djúpafirði og Gufufirði, og búið er að vefja ofan af mistökum Jónínu Bjartmars að nota orðið „umferðaröryggi“, o.s.fr, o.s.fr.

 

Ferðin var barátta sem hafðist vegna samstöðu, barátta við utanaðkomandi andstöðu. En svo er ekki lengur. Nú þýðir ekkert framar að ergja sig á höfuðborgarbúum sem berjast gegn innviðauppbyggingu í samfélögum annara á meðan þeir drulla yfir alla náttúru í sínu nærumhverfi.

 

Ég get rétt ímyndað mér hvernig íbúum vestan Klettsháls líður. Hvernig ætli okkur íbúum Reykhólahrepps hefði liðið á sínum tíma ef Vegagerðin hefði beðið í startholunum með að hefja framkvæmdir við Gilsfjarðarbrú, en hreppsnefnd Saurbæjarhrepps hefði þá allt í einu stoppað málið af vegna þess að einhverjum fannst Kaldraninn of merkilegur til að leggja um hann veg? Hefði farið út í að láta kanna aðrar leiðir eftir að hafa sjálfir tekið þátt í 10 ára undirbúningi vegar á núverandi stað?

 

Hefði skyndilega komist að þeirri niðurstöðu að betra væri fyrir sveitarfélagið Saurbæjarhrepp að fá veg inn í Ólafsdal og brúna þar yfir, og viljað hefja undirbúning aftur frá grunni? Ætli við hefðum þá fagnað 20 ára afmæli Gilsfjarðarbrúar fyrir nokkrum vikum.

Ætli málið hefði þá ekki verið tekið upp á vettvangi Fjórðungsambands Vestfirðinga, leitað stuðnings nágranna, reynt að auka á slagkraftinn í baráttunni.

 

Þið fyrirgefið, en ég skammast mín.

 

Ég vil allavega koma á framfæri afsökunarbeiðni fyrir mína hönd, þó mig gruni að margir hugsi það sama.

 

Virðingafyllst

 

Jóhannes Haraldsson

frá Kletti.

DEILA