Viðar Konráðsson, tannlæknir á Ísafirði var um síðustu helgi kosinn formaður Sambands íslenskra karlakóra, SÍK, en aðalfundur sambandsins var haldinn á Akureyri. Tekur Viðar við af Geir A. Guðsteinssyni, sem er Önfirðingur að ætt.
Að SÍK standa tvö sambönd karlakóra. Annað heitir Hekla og í því eru kórar af Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi að Egilsstöðum, alls 13-14 kórar. Hitt sambandið heitir Katla og í því eru 15 kórar frá Egilsstöðum suður um land og að Vesturlandi.
Samband íslenskra karlakóra var stofnað 1928 og varð því 90 ára á þessu ári. Að sögn Viðars Konráðssonar eru uppi hugmyndir um að næsta landsmót verði haldið 2024 á Akureyri. En heldur fyrr eða 2020 er ætlunin að næsta karlakóramót verði og þá hjá Kötlu sem veri haldið á Höfn í Hornafirði. Og Katla ætlar að halda sitt næsta mót á Egilsstöðum 2021.
Viðar Konráðsson var spurður að því hvernig það kom til að hann varð formaður. Ekki var á honum að heyra að sóst hafi sérstaklega eftir formannsembættinu „þetta var eiginlega heit kartafla sem ég sat uppi með“ segir Viðar og hlær við. Með honum tveir í stjórn svo samtals skipa þrír stjórnina.
Formennska í SÍK er eitt af þessu óeigingjarna starfi sem vinna þarf í sjálfboðavinnu til þess að halda gangandi menningarsamtökum á borð við karlakórum. Það er mikils um vert að til þess starfs fáist dugmikið fólk öllum listunnendum til ánægju.