Í lok september og byrjun október felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi bæði rekstrarleyfi og starfsleyfi tveggja fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum. Það er ekki ofmælt að nefndin lagði sig fram af fremsta megni að koma starfsemi fyrirtækjanna á kné. Eftir úrskurðinn stóðu fyrirtækin berskjölduð fyrir fyrirvaralausri lokun, sem hefði leitt af sér stórfellt fjárhagslegt tjón fyrir fyrirtækin og slíkt áfall í atvinnumálum heils fjórðungs að vandfundin er hliðstæður samanburður úr fortíðinni; og er þá á Vestfjörðum af nógu að taka í þeim efnum.
Framganga úrskurðarnefndarinnar er með fádæmum. Það fer ekki á milli mála að nefndarmenn létu öfgakennd sjónarmið ráða för og blönduðu sér í pólitíska baráttu gegn uppbyggingu laxeldis í sjó.
Engin sérþekking
Við meðferð málsins var ekki af hálfu nefndarinnar þess gætt að sækja sér sérþekkingu á viðfangsefninu. Í lögum um nefndina segir í 3. grein að nefndinni „er heimilt að kveðja sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða menn við úrskurð einstakra mála. Starfa þeir með nefndinni við undirbúning og meðferð máls eftir ákvörðun formanns“. Það var ekki gert. Nefndin hefði getað komist hjá því að opinbera vanþekkingu sína eins og hún gerði þegar aðalásteitingarsteinninn af hennar hálfu var að sjókvíaeldið hefði ekki verið borið saman við landeldi eða eldi á ófrjóum fiski. Hártogun nefndarinnar um valkosti er ekki forsvaranleg lögfræðileg túlkun og ber fyrst og fremst vott um mikla meinbægni í garð atvinnugreinarinnar.
Engar umsagnir
Þá er það ótrúleg stjórnsýsla að nefndin skuli ekki leita eftir umsögn þeirra opinberu stofnana sem nefndin gerir ómerk. Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og Matvælastofnun hafa allar lýst því yfir að úrskurðarnefndin hafi ekki leitað umsagnar þeirra áður en hún hvað upp úrskurð sinn. Úrskurðarnefndin lagði þar með sig sérstaklega fram um að sniðganga þekkingu og rökstuðning þeirra sem höfðu farið með málið.
Slúður
Þá snéri nefndin við fyrri úrskurði sínum og heimilaði nú fjárlægum veiðiréttarhöfum að eiga aðild að kærunum. Það var með þeim rökstuðningi að eldislax hefði veiðst í Vatnsdalsá í Húnavatnssýslu. Ef nefndin hefði viljað hefði hún getað kynnt sér þau mál. Það hefur ekki enn gefið sig fram sá fiskeldismaður og líffræðingur, svo vitað er til, sem veit til þess að ókynþroska lax hafi gengið upp í ferskvatnsá. Nefndin hefði alveg mátt eyða smá tíma í að afla upplýsinga um þetta atvik. Þá hefði hún séð að sá sem segist hafa veitt laxinn er einmitt veiðiréttarhafinn í ánni og akkúrat sá sem hleypti upp í loft samstarfi kokkalandsliðsins og laxeldisfyrirtækja. Veiðimaðurinn er einmitt sá sem harðast vinnur gegn laxelsi í sjó og á mikla fjárhagslega hagsmuni af stangveiði. Er þetta trúverðugasta vitnið í málinu? Mátti ekki spyrja nánar um þennan einstæða heimssögulega atburð að geldlax var kominn upp í miðja laxveiðiá hunduð kílómetra frá Patreksfjarðarflóa. Á þessu stigi málsins er þessi atburður ekkert annað en slúður sem á ekkert erindi inn í úrskurð á stjórnsýslustigi.
Ítrustu öfgar
Niðurstaða nefndarinnar var fyrirvaralaus svipting leyfa. Það er ítrasta úrræði sem nefndin beitir. Það er ekkert í lögunum sem mælir svo fyrir um. Þvert á móti, ákvæði laganna eru mjög rúm þannig að nefndin gat hagað úrskurði sínum í samræmi við tilefnið. Það er hægt að beita leiðbeinandi úrskurði sem gefur tíma til úrbóta. Það var hægt að taka tillit til þess að „hinn brotlegi“ í málinu er ekki laxeldisfyrirtækið heldur opinberar stofnanir og því fullkomlega óeðlilegt að refsa fyrirtækinu fyrir syndir stofnunarinnar. Það hefði verið eðlilegt að taka tillit til þess að meira en 20 milljarða króna fjárfesting er undir. Það hefði líka verið eðlilegt að taka tillit til þess að fjöldi starfsmanna á sitt undir því að fyrirtækin fái að vaxa og dafna án þess að ofstækisfull lagatúlkun leggi starf þeirra í rúst í einni svipan. En það var ekki gert, heldur valin sá úrskurður sem skaðaði mest. Reglan um meðalhófið fyrirfinnst ekki í bókum nefndarinnar.
Almenningur
Talibanatúlkunin í úrskurðarnefndinni lítur svo á að kærendur séu almenningur. Allir aðrir séu ekki þess verðir að til þeirra hags sé litið. Þetta er hörmuleg blinda. Starfsmenn fyrirtækjanna eru líka almenningur. Samfélögin þar sem fiskeldi er veigamikill þáttur í atvinnustarfseminni eru líka hluti af almenningi. Hin gríðarlegur tækifæri sem vaxandi fiskeldi gefa til bættra lífskjara alls almennings á Íslandi eru líka hluti af almennum hagsmunum sem sæmilega viti borin úrskurðarnefnd á að leggja ásamt öðru til grundvallar ákvörðun sinni.
Það var heldur ekki gert. Almannahagsmunirnir voru settir til hliðar til þess að þóknast afmörkuðum og fádæma ósvífnum sérhagsmunum í nafni umhverfisverndar. Úrskurðarnefndin féll á prófinu. Trúverðugleiki nefndarinnar er enginn.
Kristinn H. Gunnarsson