Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur skilað af sér skýrslu um þjónustu sem veitt er öldruðum á Íslandi, að undanskilinni þeirri þjónustu sem veitt er á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Aflað var upplýsinga um þjónustu sem veitt er öldruðum í umdæmum félagsmálastjóra og kortlagt hvaða úrbóta er þörf.
Fram kemur í skýrslunni að tæplega 41 þúsund manns eru 67 ára og eldri eða um 12% þjóðarinnar. Spáð er að öldruðum fjölgi og verði orðnir 76.000 árið 2040.
Á Vestfjörðum eru 927 orðnir 67 ára og er það heldur hærra hlutfall en á landsvísu eða 13,5%. Aðeins á Norðurlandi er hlutfallið hærra en á Vestfjörðum. Lægst er hlutfall aldraðra á Suðurnesjum 9,1% og á höfuðbrogarsvæðinu 11,7%.
Í könnuninni var aflað upplýsinga úr skýrslum og fræðilegum greinum um málaflokkinn og tekin viðtöl við þá sem koma að því að veita þjónustuna auk þess að leggja rafræna spurningakönnun fyrir úrtak úr hópi starfsfólks.
Dvalar- og hjúkrunarheimili
Viðmælendur voru beðnir að meta hvort markmiði laga um málefni aldraða (Lög
nr.125/1999) um aðgengi aldraðra að nauðsynlegri stofnanaþjónustu hefði verið náð.
Aðeins 11% þátttakenda sögðu að markmiðinu hafi verið náð (sjá töflu 25). Þriðjungur
svarenda á Suðurnesjum og tæplega þriðjungur á Vestfjörðum töldu að markmiðinu hafi
verið náð en enginn á höfuðborgarsvæðinu, aðeins 6% á Austurlandi og 8% á Norðurlandi
vestra.
Dagdvöl
Tæplega helmingur svarenda taldi dagdvöl mæta þörfum aldraðra að miklu eða öllu leyti,
en 20% svarenda sögðu dagdvöl ekki vera til staðar í viðkomandi sveitarfélagi (sjá töflu
17). Mikill munur var á milli landsvæða. Þátttakendur á höfuðborgarsvæðinu svöruðu því
allir til að dagdvöl væri til staðar en á Vestfjörðum svöruðu 63% því til að dagdvöl væri ekki til staðar og 53% á Austurlandi. Yfir helmingur svarenda í minni sveitarfélögum (þar sem fjöldi íbúa er undir 1500) sagði dagdvöl ekki vera til staðar í sveitarfélaginu samanborið við 0-8% svarenda í stærri sveitarfélögum. Fram kom í svörum þeirra sem starfa á Vestfjörðum „að tímabært væri að endurskoða dagdvalarrými
á svæðinu. Mikil þörf væri fyrir fleiri dagdvalarrými sér í lagi aðgengi íbúa af dreifbýlli
svæðum að þjónustunni. Þá hefðu t.a.m. íbúar Vesturbyggðar einungis aðgengi að tveimur
dagdvalarplássum og þörf fyrir dagdvöl væri töluverð í Bolungarvík og Súðavík. Ennfremur
þyrfti að styrkja þjónustuna sem veitt er innan dagdvalar, sjá til þess að húsnæði sé
aðgengilegt fólki í hjólastólum og að í þjónustunni starfi einnig faglært starfsfólk. Þá væri
sérstaklega þörf fyrir sértæka dagdvöl fyrir fólk með heilabilun og voru viðmælendur
sammála um að almennt þurfi að hlúa betur að þörfum þess hóps.“ segir í kafla skýrslunnar um Vestfirði.
Félagsstarf
Vestfirðir koma lakar út en landið í heild í könnuninni varðandi félagsstarf. Um 58% svarenda töldu félagsstarf aldraðra sem starfrækt er á vegum sveitarfélagsins
koma að miklu eða öllu leyti til móts við þarfir aldraðra í sveitarfélaginu. Á Vestfjörðum er hlutfallið lægra eða 47%.
Að lokum má nefna að viðmælendur voru sammála um að það sem
helst torveldi þjónustu á Vestfjörðum væru erfiðleikar við að manna stöður og langar
vegalengdir sem aldraðir þjónustunotendur og starfsfólk þarf að ferðast. Viðmælendur
töldu brýnt að auka umfang heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu. Fjölga þurfi
stöðugildum innan þjónustunnar til að koma á móts við síauknar þarfir aldraðra íbúa í
heimahúsum