Í október 2014 fór ég til Bandaríkjanna að kynna mér flugnabúskap. Í þeirri sömu ferð kynntist ég drykk nokkrum sem hefur á undarlegan hátt orðið hluti af skilyrðingu, því í hverjum októbermánuði síðan þá hefur gripið mig löngun í einn kryddaðan graskers-latte. Líkt og um hunda Pavlovs þarf ekki nema einn bolla á hausti til að viðhalda skilyrðingunni, þegar dagatalinu er flett og október blasir við byrjar munnvatnið að streyma. Þrátt fyrir að viðurkenna svo auðveldlega hve ginkeypt ég er fyrir markaðssetningu er ég samt þakklát fyrir að hafa kynnst þessum góða drykk. Hann er hluti af amerískri haustmenningu sem við Íslendingar gætum vel tekið upp á okkar arma í meira mæli. Vissulega þarf ekki að segja kapítalistum það tvisvar, að nota hvert tilefni sem gefst, hvaðan sem það kemur, til að selja brauðstritandi fólki drasl og óþarfa. Ég hef bara lesið nógu mörg vísdómsorð í „O“ – tímariti Opruh Winfrey – til að vita að hinn gamli Haustmánuður sem lýkur um það bil með þakkargjörðarhátíðinni er tilefni til að þakka fyrir sig, á allan hátt og þarf sú þakkargjörð ekki að snúast um að kaupa eitt né neitt.
Öll höfum við eitthvað til að vera þakklát fyrir. Bara það að þú getir lesið og skilið það sem stendur hér er tilefni til þakkargjörðar. Svo má líka nota þakkargjörðina til að vera svolítið pödduleg og segja frá því sem gæti verið tilefni til þakklætis – ég yrði til dæmis mjög þakklát ef nágrannar mínir í Bolungarvík yrðu duglegri við að drepa á bílunum sínum. Fyrsta skref er að viðurkenna vandann. Takk fyrir það. Ég er þakklát öllum þeim sem reykja ekki inni. Ég er líka þakklát fyrir að hafa ekki lagt alla mína geðheilsu undir veður í sumar, því nú þegar veturinn er fram undan er ég ekki uppfull af vonbrigðum, en þakka heldur fyrir að bændur gátu notað súldina og heyjað ofan í frændþjóðir okkar. Fyrir það eru þau án efa þakklát. Á 10 ára hrunafmæli er vert að þakka vinum okkar og frændum í Póllandi og Færeyjum fyrir lánin sem þeir veittu okkur, án nokkurra skilyrða, í okkar sárustu vandræðum. Ég er þakklát öllum þeim sem leggja eitthvað á sig fyrir aðra, hvort sem það er að kenna syni mínum að dansa þó hann vilji það ekki alltaf, baka brauð á nóttunni eða taka blóðþrýsting á nóttunni, eða sjá um að þinglýsa pappírum eða stofna mál í skjalakerfi. Það má þakka fyrir margt, lítið og stórt. Að finna stæði. Að hafa haft nennu til að ganga í vinnuna. Þakka fyrir að hafa ekki farið á taugum þó það hafi gleymst að ryksuga eða versla í matinn. Þakka fyrir að geta séð það spaugilega í fari óþolandi fólks eða þakka fyrir að hafa vinnu. Takk fyrir alla tónlistina. Þakka fyrir að vita meira í dag en í gær og þakka fyrir samstöðu og heilbrigða skynsemi.
Sigríður Gísladóttir