Þrítugasti og fjórði aðalfundur Landssambands smábátaeigenda hófst í gær í Reykjavík. Axel Helgason, formaður samtakanna setti fundinn og í setningarræðu sinni minnti hann fyrst á að óstöðugleiki hafi ríkt í stjórnmálaunum sem sæist best á því að nú sæti fimmti sjávarútvegsráðherrann á síðustu fimm árum. Óskaði hann þess að með þessari ríkissjórn kæmist á stöðugleiki í stjórnmálunum næstu misseri.
Vék hann síðan að veiðgjaldinu og sagði að álagning veiðigjaldsins brynni á sínum mönnum.
„Ríkisstjórnin var gerð afturreka með frumvarp um veiðigjöld nú í vor. Með frumvarpinu var viðurkennt að um oftöku væri að ræða og gerði það ráð fyrir endurgreiðslu á hluta af því sem oftekið var. En vegna pólitísks afleiks náðist ekki að setja frumvarpið á dagskrá eftir að þing kom saman eftir sveitarstjórnarkosningarnar og því fór sem fór og röng álagning sem átti að taka enda um síðustu fiskveiðiáramót var framlengd óbreytt til áramóta.
Nú er komið nýtt frumvarp og í því eru gerðar nokkrar breytingar á hvernig veiðigjaldið er reiknað, en þær taka ekki gildi fyrr en árið 2020. Þangað til er búið að fastsetja ígildi tegundanna sem um ræðir og þar með hvaða veiðigjald hver tegund ber. En afkoma veiða 2016 er sá álagningargrunnur sem byggt er á.“
Axel Helgason vakti athygli á því að veiðigjaldið tæki ekki tillit til mismunandi afkomu eftir útgerðarflokkum og smábátum væri gert að greiða sama veiðigjald og aðrir útgerðarflokkar sem sýna mun betri afkomu. „Hreinn hagnaður sem hlutfall af tekjum hjá 876 smábátum 2016 var 3,2% en hjá hinum 5 útgerðarflokkunum var þetta hlutfall rúm 24%.“
33% hærra verð fyrir þorskinn
Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda vakti athygli á því að samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands sem væru birt í skýrslu um hag veiða og vinnslu kæmi fram að smábátar seldu þorskinn á hærra fiskverði en togarar:
„Meðalverð á þorski landað af smábátum 2016 var 245 krónur, en á ísfisktogara var verðið 182 krónur. Þarna skilar sér til ríkisins, í formi staðgreiðslu, 24 krónur á hvert kíló frá smábátunum en á ísfisktogaranum eru þetta rúmar 18 krónur. Ofan á þetta bætast síðan önnur launatengd gjöld auk aflagjalds í sama hlutfalli og staðgreiðslan.“