Skylda sveitarstjórnar að taka sjálfstæða ákvörðun

Frá Fjórðungsþingi Vestfirðinga haustið 2018. Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri fyrir miðju. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri í Reykhólahreppi var inntur eftir því til hvaða sérfræðinga sveitarfélagið hyggðist leita við yfirferð þess á skýrslu Vegagerðarinnar um R leiðina og D2 jarðgangaleiðina ásamt Þ-H leið, sem birt var í vikunni. Þá var hann einnig spurður um þau atriði eru sem hann segir að hafi verið gagnrýnd í skýrslunni. Reykhólahreppur óskaði í vor eftir því að Vegagerðin ynni skýrsluna. Svör hans voru þessi:

„Þeir sérfræðingar sem við höfum átt samráð við koma frá Multiconsult, Alta og VSÓ. Þá munum við funda með Skipulagsstofnun á þriðjudaginn og væntalega með Vegargerðinni í kjölfar þess. Engin mannanna verk eru hafinn yfir gagnrýni og gildir það einnig um skýrslu Vegagerðarinnar. Þá hvílir sú lagalega skylda á sveitarstjórn Reykhólahrepps skoða málið frá öllum hliðum og taka sjálfstæða ákvörun um framhald málsins. Ef sveitarstjórn rækir ekki sínar stjórnsýslulegu skyldur getur það komið verkefninu um koll á síðari stigum málsins. Varðandi gagnrýni á skýrslu Vegagerðar þá er ekki tímabært að tjá sig um hana fyrr en fyrir liggja formlegar athugasemdir og sveitarstjórn hefur vegið þær og metið. Framhaldið verður unnið í nánu samráði við Vegagerðina og aðra þá sem málið varða. Málið er brýnt og vonandi fæst niðurstaða fyrr en seinna.“

DEILA