Kómedíuleikhúsið frumsýndi í gærkvöldi í Hannesarholti í Reykjavík leikverk um Sigvalda Kaldalóns, lækni og einn ástsælasta lagahöfund Íslendinga. Er þetta 43. verk Kómedíuleikhússins. Í verkinu dvelur skáldið við þau 11 ár sem hann átti heima í Ármúla í Ísafjarðardjúpi.
Elfar Logi Hannesson,leikur Sigvalda og Sunna Karen Einarsdóttir, lék einnig í verkinu auk þess að annast hljóðfæraleik. Leikstjóri er Þröstur Leó Gunnarsson.
Tekist hefur að draga upp afar áhugaverða mynd af skáldinu ástsæla með lýsingum á högum, starfsaðstöðu og sveitungum Sigvalda Kaldalóns. Byggt er einkum á ævisögu Sigvalda Kaldalóns og kemur ljóslega fram hversu mjög hann unni Djúpinu og Vestfirðingum og þau miklu áhrif sem dvölin fyrir vestan hafði á lagasmíðar hans. Það er kannski engin tilviljun að það eru Vestfirðingar sem standa að þessari sýningu og halda á lofti minningu skáldsins og tengslum við Vestfirði. Leikmynd var einföld, en stílhrein og hitti vel í mark. Kærar þakkir fyrir framtakið og glæsilega sýningu.
Fullt var út úr dyrum á frumsýningunni og leikendum, leikstjóra og verkinu vel fagnað. Önnur sýning verður á sunnudag. Í framhaldinu verða sýningar fyrir vestan.