Það þarf ekki frekar vitnanna við. Það er eitthvað mikið að í stjórnsýslunni og regluverkinu. Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að fella úr gildi rekstrarleyfi tveggja laxeldisfyrirtækja vegna óljósra tækniatriða sem ekki er áskilnaður um í lögum sýnir fram á það svart á hvítu. Það er líka augljóst þegar ekki virðist vera lengur hægt að nýta auðlindir landsins með skynsamlegum hætti, ekki hægt að leggja vegi og ekki hægt að framleiða né flytja rafmagn. Fyrr en varir verður kannski fátt annað hægt að gera í þessu landi en að sitja á grasbala og góna upp í tunglið.
En ekki er hægt að skella allri skuld á stjórnsýsluna og stofnanir þar innanbúðar. Rót vandans liggur í lögunum sem Alþingi hefur sett. Svo virðist sem í allri löggjöf er snýr að mati á umhverfisáhrifum, skipulagi og leyfisveitingum hafi of víðtækt vald verið framselt frá Alþingi til stjórnsýslunnar til að taka veigamiklar og matskenndar ákvarðanir um grundvöll auðlindanýtingar og innviðauppbyggingar um land allt. Þegar í ofanálag stjórnsýslan reynist ítrekað ófær um að fylgja eftir stefnu sem Alþingi hefur sett um nýtingu auðlinda og uppbyggingu – og fylgir þess í stað eigin geðþótta hvernig málum skuli fyrirkomið án tillits til fólksins í landinu – er stjórnsýslan komin langt út fyrir valdsvið sitt og nauðsynlegt að staldra við og ígrunda hvernig komist verður úr því kviksyndi sem stjórnvöld hafa álpast ofan í.
Viðbrögð við úrskurðinum
Ríkisstjórnin og Alþingi þurfa að bregðast skjótt við úrskurði þeim sem úrskurðarnefndin kvað upp sl. fimmtudag. Það fyrsta sem þarf að gera er að fresta réttaráhrifum úrskurðarins eftir réttmætum leiðum, til að veita málsaðilum færi á að leita til dómstóla til að skera úr um lögmæti úrskurðarins. Það eru slíkir hagsmunir undir í þessu máli að óhugsandi er fyrir stjórnvöld að binda ekki svo um hnúta. Næst verður að eyða óvissu sem nú hefur skapast um hvernig fara skuli með önnur sambærileg leyfisveitingarmál sem eru til meðferðar í stjórnsýslunni. Á grundvelli meðalhófsreglunnar, banni við íþyngjandi afturvirkum reglum og sjónarmiðum um réttmætar væntingar kemur ekki annað til greina en að óljós nýmæli þau sem úrskurðarnefndin tefldi fram í úrskurði sínum gildi ekki um þau mál sem þegar eru til meðferðar. Lagasetning þess efnis tæki af öll tvímæli. Í framhaldinu og til lengri tíma litið er nauðsynlegt að Alþingi treysti lagaumgjörðina sem gildir um fiskeldi þannig að hún sé fyrirsjáanleg og stöðug. Þannig er dregið úr hættu á óljósri stjórnsýsluframkvæmd og geðþóttavaldi við beitingu laganna.
Sjálfbær auðlindanýting og velferð
Undanfarna áratugi hafa Íslendingar blessunarlega borið gæfu til þess að fylgja skynsamlegri stefnu um að nýta auðlindir landsins með sjálfbærum hætti. Þannig hafa orðið til mikil verðmæti sem eru undirstaða byggðar í landinu og velferðar þjóðarinnar. Til framtíðar litið er augljóst að skapa þarf sífellt meiri verðmæti til að hægt sé að mæta kröfum samfélagsins um aukna velferð; betra heilbrigðiskerfi, menntakerfi og velferðarkerfi. Það væri hörmuleg þróun ef íslensk stjórnvöld viku frá þeirri auðlindanýtingarstefnu og létu þannig undan óréttlátum kröfum fámenns hóps þröngra sérhagsmuna. Skynsamleg nýting sjálfbærra auðlinda, efling byggða, aukin verðmætasköpun og betri lífskjör landsmanna allra verður ávallt að vera í forgangi.
Teitur Björn Einarsson
Höfundur er lögfræðingur og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi