Rannsóknir og fræðsla um sveitarstjórnarmál á Laugarvatni

Frá undirritun samstarfssamningsins á Laugarvatni. Mynd: Ármann Hákon Gunnarsson.

Rannsóknir, nám og önnur fræðsla um sveitarstjórnarmál verður efld til muna í nýju rannsóknasetri um sveitarstjórnarmál sem sett verður á laggirnar á Laugarvatni í samvinnu Háskóla Íslands og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu samstarfssamning þar að lútandi á aðalfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á Hótel Örk í dag. Gert er ráð fyrir að starfsemi í nýju rannsóknasetri um sveitarstjórnarmál hefjist 1. janúar 2019.

Meðal þess sem gert verður er að setja á fót sérstaka námslínu í framhaldsnámi í opinberri stjórnsýslu (MPA-námi) við Háskóla Íslands sem helguð er sveitarstjórnarmálum og jafnframt á að auka vægi endurmenntunarnámskeiða sem sérstaklega eru ætluð starfsfólki í stjórnsýslu sveitarfélaga og kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum. Forsvarsfólk setursins horfir til þess að nýta húsnæði Háskóla Íslands á Laugarvatni við rekstur þess en góð aðstaða er þar fyrir styttri námskeið og kennslulotur í þeim hluta MPA-námsins sem snýr að sveitarstjórnarmálum.

DEILA