Örlagadagur fyrir Vestfirði og Ísland!

Frá Fjórðungsþingi. Mynd: Bryndís Sigurðardóttir.

Á Fjórðungsþingi Vestfirðingi sem nú stendur yfir bárust tíðindi um frávísun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á erindi um frestun réttaráhrifa af úrskurðum nefndarinnar um laxeldi í Patreksfirði og Tálknafirði.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt einróma:

Það er áfall fyrir Vestfirði og þjóðarbúið í heild að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi hafnað beiðni fyrirtækjanna Arnalax (Fjarðarlax) og Arctic Fish (Arctic Sea Farm) um frestun réttaráhrifa og fellt úr gildi rekstrarleyfi fyrirtækja í fullum rekstri. Vestfirðingar eru reiðir og sætta sig ekki lengur við við úrræðaleysi og getuleysi kerfisins.

 Haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga krefst þess að Alþingi og ríkisstjórn grípi tafarlaust inn í þá atburðarrás sem úrskurður nefndarinnar hefur sett af stað og tryggi áframhaldandi rekstrargrundvöll þeirra fiskeldisfyrirtækja sem byggt hafa upp starfsemi sína á Vestfjörðum. Störf og lífsafkoma 300 manns er í bráðri hættu. Fiskeldi á Vestfjörðum er nú þegar orðin burðarás í samfélaginu og mun þessi atburðarás, ef ekkert verður að gert, hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir Vestfirði og samfélagið þar til frambúðar.

DEILA