Útgerðarfélagið Skúli ehf á Drangsnesi tók um síðustu helgi í notkun nýtt húsnæði undir beitningaraðstöðu og frystigeymslur. Um er að ræða viðbyggingu við frystihúsið á Drangsnesi alls um 300 m², að hluta til á tveimur hæðum. Verður öll aðstaða hin besta eftir breytinguna. Óskar Torfason, framkvæmdastjóri félagsins gerði grein fyrir framkvæmdum. Kostnaður er um 60 milljónir króna og hafa þegar um 50 milljónir króna verið greiddar. Fjárhagsstaða félagsins er afar góð, eigið fé er liðlega 200 milljónir króna og félagið fékk á dögunum viðurkenningarskjal frá Credit Info sem framúrskarandi fyrirtæki 2018, en aðeins 2% fyrirtækja á landinu komast í þann flokk.
Útgerðarfélagið Skúli var stofnað 2002 með stuðningi Byggðastofnunar sem lagði því og fleiri fyrirtækjum á Vestfjörðum til eigið fé. Tilgangur félagsins er að eiga aflaheimildir og styrkja útgerð í plássinu. Hefur það gengið eftir þessi 16 ár og er meginhluti veiðiheimildanna í byggðarlaginu í eigu félagsins.