Milljarður króna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Frá Ísafirði. Mynd:Kristinn H. Gunnarsson.

Samþykkt hefur verið úthlutun nærri 10 milljarða króna til sveitarfélaga landsins úr svonefndum Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem ætlaður er til þess að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga. Til almennra framlaga er veitt 9.200 milljónum króna og 750 milljónir króna er ráðstafað til skólaaksturs úr dreifbýli.

Til vestfirskra sveitarfélaga er varið rúmum milljarði króna þar af um 30 milljónum króna til skólaaksturs í dreifbýli.

Ísafjarðarbær fær 450 milljónir króna, Vesturbyggð 166 milljónir króna, Bolungavík 103 milljónir króna, Strandabyggð 97 milljónir króna, Reykhólar 84 milljónir, Súðavíkurhreppur 58 milljónir. Tálknafjörður 49 milljónir og Kaldrananeshreppur 19 milljónir króna.

Athygli vekur að Árneshreppur fær ekkert úr Jöfnunarsjóði að þessu sinni. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti segir að ástæðan sé vafalaust sú að ekkert skólahald er í hreppnum þetta skólaárið. Framlög úr Jöfnunarsjóði hafi verið vegna reksturs skólans og hafi numið 12 – 15 milljónum króna.

Til skólaaksturs í dreifbýli er varið 10 milljónum króna í Reykhólahreppi og sam fjárhæð til Strandabyggðar. Í Ísafjarðarbæ fara 7 milljónir króna til skólaaksturs í dreifbýli. Ein og hálf milljón í Vesturbyggð og hálf milljón króna í Bolungavík fara úr Jöfnunarsjóði sveitarfélagi til skólaaksturs í dreifbýli.

 

DEILA