Mikilvægt fyrir bæjarfélagið að hafa öflugan tónlistarskóla

Nemendur og kennarar í Tónlistarskólanum á Ísafirði fögnuðu afmælinu saman í gær.

Það efast enginn um það að tónlist og söngur göfga andann og gleðja manninn. Söngur er líka til þess fallinn að skapa samkennd og kennir einstaklingum að dansa í takt við náungann og bera virðingu fyrir öðrum, því annars gengur söngur jú ekki upp.

Það er unun að hlusta á Kvennakórinn og Sunnukórinn syngja.

Tónlistarskóli Ísafjarðar var 70 ára í gær og af því tilefni hittust kennarar og nemendur í Hömrum og æfðu saman fyrir afmælisveisluna sem haldin verður á laugardaginn. Eftirvæntingin lá í loftinu og spennan smitaðist í flutning kóranna sem sungu af mikilli tilfinningu og innlifun. Það átti bæði við um blandaðan kór Kvennakórsins og Sunnukórsins, en líka kóra yngri bekkjanna þar sem sum barnanna voru að koma fram í fyrsta skiptið.

„Við höldum formlega veislu á laugardaginn sem byrjar með lúðraþyt klukkan 10:30. Þá

Sigrún Pálmadóttir var glöð í bragði eins og aðrir í tónlistaskólanum á þessum tímamótum.

ætlum við að vekja bæinn og minna á okkur,“ sagði Sigrún Pálmadóttir óperusöngkona og aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans í samtali við BB. „Svo verður lúðraþytur hér á svölunum og formleg dagskrá hefst hér í skólahúsinu klukkan 12. Dagskráin hér stendur til 14:30 og frá 15-17 verður dagskrá sem kallast Heimilistónar en það eru tónleikar í heimahúsum víðsvegar um Ísafjörð.“

Þegar blaðamaður kom í afmælisveisluna í Hömrum í gær var hópurinn í óða önn að syngja afmælissöng fyrir Jón Ásgeirsson. Söngurinn var svo tekinn upp og sendur til Jóns, en hann er tónskáldið sem samdi meðal annars Maístjörnuna sem allir þekkja og þennan dag átti hann níræðisafmæli.

 

Börnin í yngstu kórunum sungu af mikilli innlifun.

Ísafjörður hefur alið af sér heilmarga mjög hæfileikaríka tónlistarmenn og það ætti að vera hverjum manni ljóst hversu mikilvægt það er að hafa öflugan tónlistarskóla. Sigrún Pálmadóttir samsinnti þessu og bætti við: „Tónlistin er svo stór hluti af lífi okkar allra, hvort sem við erum í tónlistarskóla eða ekki þá erum við alltaf með einhverja tónlist einhversstaðar. Hún gæðir líf okkar gleði. Þannig að ég held að það hafi mikið áhrif á bæjarfélagið að hér sé góður tónlistarskóli. Lúðrasveitin fer til dæmis mikið á allskonar viðburði og hér eru fjölmargir kórar í skólanum og svo tveir gestakórar sem æfa í húsinu.“

Það eru allir velkomnir á afmælishátíðina og fólk er hvatt til að mæta, þó ekki nema til að skoða skólahúsið og sýningarnar sem settar eru upp í tilefni afmælisins.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA