Lilja Rafney Magnúsdóttir flutti í gær á Alþingi stutta ræðu til minningar um Pétur Sigurðsson, fyrrverandi forseta Alþýðusambands Vestfirðinga.
Herra forseti. Staða launþegahreyfinga í landinu á sér djúpar og sterkar rætur. ASÍ er yfir 100 ára og sagan lýsir ótrúlegum framförum í réttindum fólks og aðbúnaði öllum. Verkalýðshreyfingin hefur lagt grunninn að velferðarsamfélagi okkar í dag og tekist hefur í samvinnu við ríki, sveitarfélög og atvinnurekendur í kjarasamningum að koma okkur í fremstu röð velferðarsamfélaga. Það sem okkur þykir sjálfsögð réttindi í dag á vinnumarkaði hefur náðst með baráttu og samstöðu þessa fólks sem ruddi brautina í réttinda- og kjarabaráttu liðinna ára. Við getum nefnt hluti eins og veikindarétt, orlofsrétt, atvinnuleysisbætur, lífeyris- og sjúkrasjóði, félagslegt húsnæði, fæðingarorlof, símenntunarstöðvar, orlofshús og áfram mætti telja. Allt þetta eigum við óeigingjarnri baráttu forfeðra og formæðra okkar að þakka sem ruddu brautina til þeirra sem standa nú í stafni fyrir launþegasamtökin í landinu.
Nú stendur verkalýðshreyfingin frammi fyrir mörgum erfiðum áskorunum í nútímasamfélagi eins og t.d. félagslegum undirboðum, hagnýtingu fólks og mansali, vondum aðbúnaði erlends verkafólks, glímu við starfsmannaleigur og kennitöluflakk. Við skulum standa með verkalýðshreyfingunni í komandi kjarasamningum og horfa til þeirra lægst launuðu á vinnumarkaði, vinna sameiginlega að því að koma húsnæðismálum í lag og byggja áfram undir velferðarkerfið okkar og laga það sem úrskeiðis hefur farið.
Þeir sem staðið hafa í fremstu röð í kjarabaráttu síðustu hálfa öld eru einn af öðrum að hverfa yfir móðuna miklu. Nú er genginn á vit feðra sinna öflugur málsvari verkafólks, verkalýðskempan Pétur Sigurðsson frá Vestfjörðum, fyrrum forseti Alþýðusambands Vestfjarða og fyrsti formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Hann sat einnig á Alþingi sem varaþingmaður Alþýðuflokksins. Blessuð sé minning hans. Megi ný verkalýðsforysta taka sér menn eins og hann sér til fyrirmyndar í komandi kjarabaráttu.