Laxeldi: starfsleyfin felld úr gildi

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í dag úr gildi starfsleyfi Fjarðalax og Arctic Sea Farm fyrir 17.500 tonna sjókvíaeldi á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Umhverfisstofnun veitti starfsleyfin 13. desember 2017 og var ákvörðun stofnunarinnar kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Kærendur voru : Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarsamtökin Laxinn lifi, Akurholt ehf. og Geiteyri ehf., eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, Ari P. Wendel, eigandi Kirkjubóls í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Fífustaðadal, Víðir Hólm Guðbjartsson, eigandi Grænuhlíðar í Arnarfirði og veiðiréttarhafi í Bakkadal, Fluga og net ehf., rekstrarfélag Vatnsdalsár á Barðaströnd, Atli Árdal Ólafsson, eigandi hluta veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverðu Ísafjarðardjúpi og Varpland ehf., eigandi hluta veiðiréttar í Langadalsá og Hvannadalsá, og veiðifélag Laxár á Ásum.

Í rökstuðningi úrskurðarnefndarinnar segir að matsskýrsla framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar á henni hafi ekki getað verið lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um veitingu leyfa til framkvæmda, s.s. þess rekstrarleyfis sem hér er deilt um. Segir ennfremur að  Umhverfisstofnun, sem því stjórnvaldi sem hið kærða leyfi veitti, hafi borið skylda til að tryggja að málið væri nægilega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, en í því felst að gæta að því að lögbundið álit Skipulagsstofnunar sé nægilega traustur grundvöllur leyfisveitingar.

Líkt og fram kom í fyrri úrskurðum þegar rekstrarleyfið var fellt úr gildi setur nefndin hornin í að í umhverfismatinu hafi ekki sjókvíeldið verið borið saman við aðra kosti og að ekki hafi verið sýnt fram á í umhverfismatsferlinu að enginn annar kostur hafi komið til greina.

DEILA