Laxeldi ógnar afkomu fólks í sveitum

Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök­um Íslands, nátt­úru­vernd­ar­fé­lag­inu Lax­inn lifi og átta veiðirétt­ar­höf­um, sem voru sam­eig­in­leg­ir kær­end­ur vegna áforma um risa­sjókvía­eldi norskra auðhringa og risa­eld­is­fyr­ir­tækja í Pat­reks­firði og Tálknafirði hafa sent frá sér sameiginlega tilkynningu til fjölmiðla:

„Í fram­haldi af frétt­um í gær og í dag frá ráðherr­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar, eft­ir að Úrsk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála ógilti leyfi fyr­ir lax­eldi í opn­um sjókví­um í Pat­reks­firði og Tálknafirði, telj­um við nauðsyn­legt að koma eft­ir­far­andi á fram­færi:

Úrsk­urðar­nefnd­in er stofnuð með lög­um og er óháð og sjálf­stæð í störf­um sín­um á sama hátt og dóm­stóll.  Ráðherr­ar hafa því ekki heim­ild til að breyta úr­sk­urðum nefnd­ar­inn­ar, held­ur njóta deiluaðilar  skv. 60. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar rétt­ar til að bera úr­sk­urðina und­ir dóm­stóla.

Því hafa norsku lax­eld­is­fyr­ir­tæk­in lýst yfir að þau muni gera og að þau muni fara fram á flýtimeðferð. Lög­um sam­kvæmt frest­ar máls­höfðun ekki réttaráhrif­um úr­sk­urðanna og ráðherr­ar hafa þar ekk­ert íhlut­un­ar­vald. Öll slík íhlut­un bryti gegn þrískipt­ingu rík­is­valds­ins skv. 2. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar. Ef ráðherra gerði að engu úr­lausn nefnd­ar­inn­ar má ætla að hann stigi inn á svið dóm­stóla og gengi þannig á svig við ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar.

Úrsk­urðar­nefnd­in var sett á fót með sér­stök­um lög­um til að upp­fylla ákvæði alþjóðasamn­ings um óháðan og sjálf­stæðan úr­sk­urðaraðila í ákveðnum um­hverf­is­mál­um, m.a. til að leysa úr ágrein­ingi um gildi starfs­leyfa eins og hér um ræðir. Hef­ur nefnd­in nú leyst úr ágrein­ingn­um og aðilarn­ir njóta rétt­ar til þess að bera þá ákvörðun und­ir dóm­stóla skv. stjórn­ar­skrá.

Við vör­um ráðamenn þjóðar­inn­ar við að reyna að ganga gegn upp­kveðnum úr­sk­urðum óháðrar og sjálf­stæðrar úr­sk­urðar­nefnd­ar um­hverf­is- og auðlinda­mála. Við telj­um enga und­anþágu verða að lög­um veitta til fisk­eld­is­fyr­ir­tækja til starfa án gildra starfs­leyfa.

Íslensku nátt­úru­vernd­ar­sam­tök­in byggja  mál­flutn­ing sinn á byggða- og um­hverf­is­vernd­ar­sjón­ar­miðum.  Tekj­ur af nýt­ingu ís­lenskra fall­vatna með laxa­stofn­um eru mik­il­væg­ur þátt­ur í að byggð geti hald­ist í sam­fé­lög­um sem eiga und­ir högg að sækja sam­fara hnign­un hefðbund­inna land­búnaðargreina. Rúm­lega 1800 lög­býli á Íslandi  hafa tekj­ur af lax- og sil­ungsveiðihlunn­ind­um og skapa þau um 1200 árs­störf. Skráðir eig­end­ur lög­býl­anna eru um 5000 tals­ins og nýt­ur rík­is­sjóður þessa í skatt­tekj­um. Með af­leidd­um störf­um eru hér und­ir a.m.k. 3.600 árs­störf.  Lax­eldi í opn­um sjókví­um ógn­ar af­komu þessa fólks í sveit­um.

Það er til lít­ils að skapa störf með því að eyða þeim ann­ars staðar.

Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök­in standa vörð um mikla hags­muni: að ekki sé stefnt í hættu líf­ríki margra lax- og sil­ungsveiðiáa lands­ins með lúsa­fári og meng­un frá fram­andi, er­lend­um og kyn­bætt­um eld­islaxi. Eng­inn mót­mæl­ir því að lax­inn muni sleppa úr fyr­ir­huguðu sjókvía­eldi í Pat­reks­firði og Tálknafirði. Víst er að eld­is­fisk­ur­inn mun dreifa sér í veiðiár allt í kring­um landið eins og ný­leg reynsla sýn­ir.

Þegar eru farn­ir að veiðast eld­islax­ar í ýms­um veiðiám og það án þess að til­kynnt hafi verið um sleppitjón, t. d. í Ísa­fjarðar­djúpi, Stein­gríms­firði, Vatns­dalsá og í Eyja­fjarðará. Sam­kvæmt skýrsl­um Haf­rann­sókna­stofn­un­ar sýn­ir reynsl­an bæði hér á landi sem og ann­ars staðar, að all­ar veiðiár lands­ins séu í hættu, hvar sem eldið er staðsett.

Tug­ir eða hundruð strok­fiska eru á bak við hvern stang­veidd­an eld­islax. Þannig hef­ur Leó Al­ex­and­er Guðmunds­son, líf­fræðing­ur hjá Haf­rann­sókna­stofn­un upp­lýst, að eld­islax­ar þeir sem veiðst hafi á þessu ári gefi aðeins tak­markaða mynd af stöðu mála þar sem eld­islax­inn hafi til­hneig­ingu til að ganga seinna upp í árn­ar en villti lax­inn og  því megi ætla að raun­veru­leg­ur fjöldi eld­islaxa í ám lands­ins muni ekki koma fram fyrr en laxveiðitíma­bil­inu lýk­ur. Þeir eld­islax­ar sem hafi veiðst í ánum séu aðeins topp­ur­inn á ís­jak­an­um.

Sókn­ar­færi í fisk­eldi felst í að taka land­eldi með geld­fiski á dag­skrá.  Það sjókvíal­ax­eldi sem byrjað er á nokkr­um stöðum hér á landi er þegar í mikl­um vanda­mál­um vegna strok­fisks, dauðfisks af óþekkt­um ástæðum, lúsa­fárs og sjúk­dóma, einkum nýrna­veiki og blóðþorra.  Land­eldi með geld­fiski er nú byrjað í stór­um stíl í Nor­egi og Kan­ada.

Nátt­úru­vernd­ar­sam­tök­in munu ekki hvika frá varðstöðu sinni um byggðir lands­ins og ómengað um­hverfi.“

 

DEILA