,,Ljóst er að Hádegissteinn er á hreyfingu og gæti hrunið niður í byggðina við Dalbraut og neðan hennar fyrirvaralaust.“ Þetta er niðurstaða Veðurstofu Íslands og Ofanflóðasjóðs dagsett 21.ágúst 2017.
Í ljósi þessarar staðreyndar ákváðu bæjaryfirvöld í ísafjarðarbæ að Hádegissteinn skyldi fjarlægður. Það gerðist á fundi bæjarstjórnar þann 18. desember 2017. Skipulags- og byggingafulltrúa bæjarins var í framhaldi af þessu falið að kynna erindið fyrir íbúum við Dalbraut í Hnífsdal.
Eftir níu mánaða meðgöngu fengu íbúar við Dalbraut í Hnífsdal kynningarpakka frá Ísafjarðarbæ þar sem greindi ágætlega frá öllum málavöxtum varðandi Hádegisstein og að steinninn skyldi sprengdur með allri aðgæslu. Undu menn nú glaðir við sitt í Hnífsdal að loksins færi eitthvað að þokast og þeir hefðu ekki bjargið hangandi yfir höfði sér daga og nætur. Þurfti ekki neina sérfræðinga að sunnan eða héðan til að álykta að steinninn gæti valdið miklum hörmungum þegar hann færi af stað og mannslíf í veði. Steinninn var á hreyfingu.
Ekki leið nema vika þegar út fór að kvisast að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefði hafnað framkvæmdaleyfi til að fjarlægja Hádegisstein. Þegar fundargerð birtist kom í ljós að bæjarfulltrúar í Ísafjarðarbæ létu allar niðurstöður um hættuna af Hádegissteini sem vind um eyru þjóta. Á þessum magnaða bæjarstjórnarfundi var leitað afbrigða og báru þeir Kristján Þór Kristjánsson og Sigurður Jón Hreinsson fram tillögu í þessa veru og eini rökstuðningurinn var sá að Hádegissteinn væri eitt af aðaleinkennum Hnífsdals. Því væri það mikil skammsýni að telja það sjálfsagt að sprengja steininn og fjarlægja hann. Lagt var til að steinninn færi hvergi þar til hönnun svæðsins lægi endanlega fyrir en snjóflóðavörnum verður komið upp í Bakkahyrnu. Bravó hrópuðu níu bæjarfulltrúar, dauð náttúran skyldi loksins njóta vafans í þeim ranni, ekki lifandi fólk í Hnífsdal.
Það sem hér hefur verið sett á blað eru allt skjalfestar heimildir.
Vanvirðingin sem íbúum Hnífsdals er sýnd er með ólíkindum. Viku eftir að þeir hafa loksins fengið kynnningu á niðurbroti þess ógnvalds sem Hádegissteinn er lifandi fólki, börnum og fullorðnum, er lætt inn tillögu í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar sem bæjarfulltrúar samþykkja einum rómi. Hádegissteinn skuli enn hanga yfir höfðum fólks í Hnífsdal. Annað hvort hafa þeir aldrei kynnt sér gögn málsins, sem á sér alllangan feril, eða haldnir slíku kaldlyndi að farið hafi fé betra en nokkrir Hnífsdælingar svo þráhyggja og nostalgía nokkurra brottfluttra Hnífsdælinga og einhverra heimamanna fái að grasséra. Ég trúi því tæplega, heldur hafi kæruleysi og tilfinningadoði bæjarfulltrúa gagnvart náunganum ráðið hér um. Þetta er líka stjórnsýslulegt fúsk af versta tagi þar sem ljóst er að bæjarfulltrúar hafa ekki unnið heimavinnuna sína sem þeim ber að gera. Ég skora á bæjarfulltrúa Ísafjarðarbæjar að lesa þau gögn sem íbúum við Dalbraut voru send viku áður en þessi órtrúlega samþykkt var gerð, taki það til greina sem þar stendur og snúi frá villu síns vegar.