Í kvöld takast á lið Ísafjarðarbæjar og Garðabæjar í spurningaleiknum
Útsvari í Sjónvarpinu. Lið Ísafjarðarbæjar er það sama og í fyrra, og er
skipað Greipi Gíslasyni, Tinnu Ólafsdóttur og Gylfa Ólafssyni. Liðið
komst þá í úrslit en laut í lægra haldi fyrir liði Ölfusinga.
„Garðbæingar hafa alltaf teflt fram firnasterku liðum, svo það verður
heiður að fá að glíma við þau,“ sagði Gylfi Ólafsson í samtali við
blaðið.
„Okkur var legið á hálsi fyrir að vera miðborgarrottur sem drekka bara
mjólkurblandað kaffi bruggað undir þrýstingi þar sem ekkert okkar var
búsett í bænum í fyrra. Við vörðum okkur með því að segjast hafa búið
lengi í bænum og alltaf með annan fótinn innan hans. En það var ekki nóg
fannst okkur. Við hlustuðum á þessar gagnrýnisraddir og tókum tillit til
þeirra. Því gerðum við það eina sem við sáum í stöðunni—við fluttum bara
vestur, og nú búa tveir þriðju liðsins í póstnúmeri 400“ segir Gylfi.
Áhorfendur eru velkomnir að hvetja sitt lið í sjónvarpssal kl. 19:00 en
útsending hefst kl. 19:45. Hægt er að fylgjast með ævintýrum liðsins og
styðja það á facebook-síðu
þess[https://www.facebook.com/groups/130147920952341/].