Frá því er skýrt á vef samtaka atvinnulífsins af RÚV hafi beðið Múr- og málningarþjónustuna afsökunar á að hafa ranglega tengt fyrirtækið við brotastarfsemi í atvinnurekstri.
Málavextir voru samkvæmt því sem fram kemur hjá samtökum atvinnulífsins:
„Í sjónvarpsþættinum Kveik sem sýndur er á RÚV og fjallaði um slæman aðbúnað og kjör erlends starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði voru birtar myndir frá starfsemi Múr- og málningarþjónustunnar og í fréttum í kjölfar þáttarins var merki fyrirtækisins sýnt. Fyrirtækið andmælti að vera tengt með þessum hætti við brot á erlendu launafólki og baðst fréttastofa RÚV velvirðingar á þeim mistökum.“
Segja samtökin að umfjöllun fjölmiðla um stöðu launafólks á íslenskum vinnumarkaði sé mikilvæg og að hún veiti atvinnurekendum aðhald. „Það verður hins vegar að gera þá kröfu að umfjöllun sé málefnaleg og einstök fyrirtæki ekki tengd brotastarfsemi nema sýnt hafi verið fram á brot þeirra.“ segir að lokum.
Sama í tilviki Kalkþörungaverksmiðjunnar
Svo vill til að sömu atvik voru þann 15. júlí í sumar þegar RÚV fjallaði um stöðu starfsfólk sem væri háð fyrirtæki um húsnæði sem það einnig vinnur hjá. Rætt var við lögfræðing ASÍ sem sagði að það hefðu komið upp tilvik þar sem fólkinu var sagt upp húsnæðinu þegar það hætti í vinnu hjá viðkomandi fyrirtæki. Fréttamaðurinn, Alma Ómarsdóttir nefndi sérstaklega tvö fyrirtæki sem hefði byggt húnsæði fyrir starfsmenn sína og var Kalkörungaverksmiðjan annað þeirra.
Af því tilefni var 20. ágúst fréttamanninum send fyrirspurn um það hvort fréttastofa RÚV hefði sérstaka ástæðu til þess að ætla að Kalkþörungaverksmiðjan væri í hópi fyrirtækja sem gagnrýnd voru í fréttinni eða hvort fyrirtækið hefði verið nefnt af handahófi. Í svari Ölmu Ómarsdóttur sagði:
„Staðreyndin er sú að verksmiðjan er eitt af þeim fyrirtækjum sem hefur þennan háttinn á – að útvega starfsfólki húsnæði, líkt og IKEA, sem einnig var nefnt í fréttinni. Í fréttinni var ekki lagt neitt mat á það hvort þessi fyrirtæki gangi á réttindi starfsmanna sinna í krafti þess að starfsmenn eru háðir þeim um hvort tveggja atvinnu og heimili. ASÍ bendir aftur á móti á að hættan á því sé fyrir hendi.“
í ljósi afsökunar RÚV vegna Múr- og málningaþjónustunnar virðist augljóst að RÚV skuldar Kalkþörungaverksmiðjunni á Bíldudal afsökunarbeiðni. Varla verður því trúað að ekki gildi það sama fyrir fyrirtæki á Bíldudal og í Reykjavík.