„Stærðagráða fyrirhugaðs laxeldis gerir framkvæmdina fordæmalausa á Íslandi. Til samanburðar má benda á að framleiðslan á ferkílómetra í Patreksfjarðarflóa yrði álíka og á einu mesta laxeldissvæði Noregs, Harðangursfirði. Í Harðangursfirði er laxalús og erfðablöndun mikið vandamál og hefur t.d. verið gripið til þess ráðs að varðveita erfðaefni laxa- og urriðastofna í genabönkum. Þótt aðstæður séu um margt ólíkar milli þessara tveggja eldissvæða verður að teljast að mikil áhætta sé tekin t.d. vegna laxalúsa og ekki öruggt að mótvægisaðgerðir gegn henni dugi.“
Þetta kemur fram í umsögn Hafrannsóknarstofnunar til Matvælastofnunar dags 23. nóv. 2017 um 17.500 tonna laxeldi í sjó í Patreksfirði og Tálknafirði. Matvælastofnunin veitti rekstrarleyfi sem úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur nú fellt úr gildi.
Þá segir í umsögn Hafrannsóknarstofnunar til Matvælastofnunar að frá því að Skipulagsstofnun hafi gefið álit sitt á matsskýrslunni þann 23.9. 2016 um laxeldið í Patreksfirði og Tálknafirði sé staðan nú gjörbreytt þar sem síðan hafi komið fram skýrsla Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun eldislaxa og náttúrulegra laxa á Vestfjörðum. Í áliti Skipulagsstofnunar væri getið um slysasleppingu í Patreksfirði en þá sagt að engar upplýsingar væru um hrygningu strokulaxa í Botnsá í Tálknafirði. Ennfremur segir í umsögn Hafrannsóknarstofnunar í beinu framhaldi:
„Rannsókn Hafrannsóknastofnunar greindi hins vegar erfðablöndun eldislaxa og náttúrulegra laxa í ánni þar sem aldur flestra blendingsseiða var í samræmi við tímasetningu slysasleppingarinnar. Rannsóknin sýndi einnig fram á að erfðablöndun hefði átt sér stað fyrir áðurnefnda slysasleppingu en það ár var ekki tilkynnt að eldislax hefði strokið. Það sama á við um erfðablöndunina sem greindist í ám í Arnarfirði að ekki var hægt að tengja aldur seiða við tilkynnt strok. Hins vegar var samræmi á milli aldurs þeirra blendinga og veiðar eldislaxa í ám í Arnarfirði. Haustið 2017 hafa veiðst strokulaxar í á í Arnarfirði og í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi en engin hefur tilkynnt slysasleppingu.“
Þá gerði Hafrannsóknarstofnun athugasemd við að í matsskýrslunni sé gert ráð fyrir að 5 strokulaxar muni leita upp í ár fyrir hver 1000 tonna framleiðslu en útreikningar Hafrannsóknarstofnunar sem byggja á áhættumatinu stofnunarinnar gera ráð fyrir 18 löxum pr hver 1000 tonn. Þá séu laxastofnar á sunnanverðum Vestfjörðum hlutfallslega litlir og viðkvæmir fyrir mögulegri blöndun.
Framkvæmdin er hinsvegar innan marka Áhættumats Hafrannsóknastofnunar m.t.t. laxastofna í Ísafjarðardjúpi og Breiðafirði miðað við þær forsendur sem það nú byggir á, segir í umsögninni.
Niðurstaða Hafrannsóknastofnun er að stofnunin telur að fyrirhuguð framkvæmd geti haft neikvæð vistfræði- eða erfðafræðiáhrif á stofna laxfiska á sunnanverðum Vestfjörðum.
Undir umsögnina skrifa Leó Alexander Guðmundsson og Guðni Guðbergsson.