Grunnskólarnir á Suðureyri og Ísafirði taka þátt í Erasmus verkefni

Hópurinn frá Búlgaríu, Hollandi, Grikklandi, Svíþjóð og Suðureyri. Mynd: Grunnskólinn á Suðureyri.

Jóna Benediktsdóttir hefur sagt frá því á heimasíðu Grunnskólans á Suðureyri, að skólinn þar og Grunnskólinn á Ísafirði hafi fengið styrk frá Evrópusambandinu til að vinna samstarfsverkefni með fjórum öðrum Evrópulöndum, Grikklandi, Svíþjóð, Búlgaríu og Hollandi. Það er gríðarlega flott hjá Jónu að standa fyrir þessu og eflaust mikið sem vinnan mun gefa nemendum allra þessara landa.

Jóna skrifar: „Í verkefninu munu nemendur vinna með mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og skoða hvernig ólík lífsskilyrði og viðhorf hafa áhrif á möguleika fólks til að fá notið þeirra réttinda að fullu. Markmið með verkefninu er að auka skilning og umburðarlyndi gagnvart ólíkum aðstæðum fólks. Nemendur 9.bekkjar verða þátttakendur af okkar hálfu og fjölmargir starfsmenn skólanna taka einnig þátt í verkefninu með einum eða öðrum hætti. Í verkefninu felst einnig að nemendur fara í heimsóknir á milli landanna og kynnast þar af eigin raun ólíkum aðstæðum. Fyrsta heimsóknin í verkefninu var undirbúningsfundur allra kennaranna sem taka þátt í vinnunni með nemendum sínum og fór sú heimsókn fram hér á Íslandi núna í október.“

„Hópurinn kom keyrandi vestur þar sem voru vinnustofur og skoðunarferðir í þrjá daga.

Sumir gestanna höfðu aldrei komið í fiskvinnslu áður. Mynd: Grunnskólinn á Suðureyri.

Það er alltaf gaman að taka á móti gestum því það krefst þess að maður velti fyrir sér hvað er skemmtilegt að sýna ferðamönnum. Að þessu sinni fóru þátttakendur í sögugöngu með Jónu Símoníu Bjarnadóttur, fóru í Seefood-trail, göngu á Suðureyri, kynningu hjá Ísafjarðarbæ og borðuðu í Tjöruhúsinu. Auk þess að vera í skólaheimsóknum og fræðast um skólakerfið á Íslandi.“

Næsta heimsókn í þessu verkefni verður til Grikklands. Áður en af því verður munu nemendur Grunnskólans á Suðureyri fjalla um frelsi fólks til að hafa skoðanir, jafnræði og virðingu. Þetta er allt hluti af mannréttindayfirlýsingunni og það verður spennandi að fylgjast með hvernig ungmennin nálgast þetta viðfangsefni.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA