Samningar hafa tekist milli mín og BB Útgáfufélags ehf um kaup á rekstur fréttamiðilsins bb.is og blaðsins Bæjarins besta ásamt léni, vefréttindum og öðrum verðmætum sem útgáfunni fylgja.
Tek ég við rekstrinum í dag og verður þegar í stað lögð áhersla á að styrkja fréttaflutning á vefnum.
Fráfarandi rekstraraðilum og starfsfólki eru færðar góðar þakkir fyrir störf þeirra. Áfram verður þörf fyrir liðsinni og aðstoð við útgáfuna sem verður vel þegin.
Fréttamiðillinn mun einbeita sér að efni um Vestfirði og Vestfirðinga innan sem utan fjórðungs auk almenns fréttaflutnings, sem getur átt skírskotun um land allt. Megináhersla verður á vefinn bb.is, en blaðaútgáfa verður áfram til skoðunar og fylgst með aðstæðum á markaðnum.
Þrátt fyrir góðæri undanfarin ár hefur rekstur fjölmiðla almennt verið þungur og helstu fjölmiðlar landsins hafa gert síðasta ár upp með verulegu tapi. Af þeim ástæðum er það nokkur áskorun að takast þessi rekstur á hendur. En lykillinn að árangri liggur í því að halda útgjöldum innan þeirra marka sem tekjur leyfa. Það er gömul og gullvæg regla sem hafa skal í heiðri og því munu umsvif aukast svo skjótt sem grunnurinn stendur undir hverju sinni.
með bestu kveðjum
Kristinn H. Gunnarsson, ritstjóri.