Dagvistarmál í ólestri

Eyrarskjól. Mynd: Ísafjarðarbær.

Áskorun til bæjarfulltrúa Ísafjarðarbæjar og annarra sem málið varðar.

Kæri bæjarstjóri, bæjarfulltrúar og nefndarmenn fræðislunefndar.

Nú líður að lokum míns fæðingarorlofs. Ég var svo lánsöm að eignast tvíbura nú í janúar, ég tók 12 mánaða fæðingarorlof og gerði ráð fyrir því að geta snúið til míns fyrra starfs í byrjun janúar.
Sú ákvörðun virðist þó ekki vera mín, því í bænum okkar eru engin úrræði fyrir barnafjölskyldur sem eiga börn frá 6-18 mánaða.
Um hverjar kosningar færist líf í umræðuna um dagvistarmál, flokkar keppast við að leggja
áherslu á málaflokkinn og lýsa mikilvægi þess að koma til móts við barnafjölskyldur. Flestir eru sammála um að taka ætti inn 12 mánaða börn, skoða möguleikana á ungbarnaleikskóla og allir eru boðnir og búnir til að lofa úrræðum. En þegar talið hefur verið uppúr kjörkössunum er lítið eftir nema innantóm loforð og skyndilausnir. Plástrar sem gagnast sumum og ekkert í boði fyrir þá sem á eftir koma.

Á þessu ári er verið að taka inn óvenju ung börn í leikskóla bæjarins, sem er frábært. En eftir sitjum við, foreldrar barna fædd haustið 2017 og 2018. Við erum án dagvistunar og þurfum því að vera tekjulaus að fæðingarorlofi loknu og eigum ekki von á leikskólaplássi fyrr en í fyrsta lagi eftir sumarlokanir 2019. Við fáum þau svör að stefna bæjarins sé að taka einungis inn 18 mánaða gömul börn. Foreldrar reyna að dreifa fæðingarorlofi sínu á lengri tíma til að brúa bilið að hluta en það dugar ekki til. Það er fyrir séð er að eftir sumarlokanir 2019 verða sum börnin 20-22 mánaða þegar þau komast loks inn á leikskóla.
Ein úr okkar röðum hafði samband við Skóla- og fjölskylduskrifstofu þar sem hún vissi að röðin væri að koma að hennar barni, svarið sem hún fékk var að 3 pláss væru laus á leikskóla í bænum en það vantaði starfsmann til að taka inn fleiri börn. Hún fór að skoða atvinnuauglýsingar og sá að hvergi er verið að auglýsa eftir starfsmanni í þá stöðu. Aðrir foreldrar þurfa að grípa til þess ráðs að setja börnin í leikskóla á Suðureyri eða á Flateyri með tilheyrandi óþægindum, kosnaði og vinnutapi.
Hvaða skilaboð eru það til okkar sem heima sitjum, óörugg um að starfið sem bíður okkar eftir 6-12 mánaða fæðingarorlof sé enn til staðar þegar við komum börnunum okkar í dagvistun. Sumir foreldrar eru í vaktavinnu og geta púslað saman starfshlutfalli í kvöld/nætur- og helgarvinnu, aðrir geta með herkjum tekið á sig launalaust leyfi og einhverjir sitja við óvissuna eina og horfa á vaxandi yfirdrátt í bankanum.
Ég hafði samband við starfsmann skóla- og fjölskylduskrifstofu og spurði hvort eitthvað hefði verið rætt um aðgerðir af hálfu bæjarins til að gera starf dagforeldra meira aðlaðandi. Útvega húsnæði, auka greiðslur til dagforeldra eða eitthvað annað af hálfu bæjarins. Eins og er eru engir starfandi dagforeldrar í bænum.
Svarið sem ég fékk var að ekkert lægi á borðinu í þeim efnum, einhverjar mæður hefðu spurst fyrir og sýnt dagforeldrastarfinu áhuga en þótt staða sín ótrygg þar sem nú væri verið að taka inn 12 mánaða gömul börn.
Við búum því í kerfi sem grefur undan dagforeldrastarfinu. Það er gjörsamlega óþolandi fyrir foreldra að standa frammi fyrir margra mánaða tekjuleysi vegna skorts á úrræðum eftir að fæðingarorlofi lýkur. Óvissan um framtíðina og fjárhagslega stöðu fjölskyldunnar er verulega íþyngjandi. Ég er svo langt því frá ein í þeirri stöðu að komast ekki til vinnu að fæðingarorlofi loknu. Í röðum foreldra í fæðingarorlofi, er fólk að ganga í gegnum sömu óvissuna ár eftir ár, jafnvel með sitt þriðja barn.
Að bíða í algjörri óvissu um hvort og hvenær börnin okkar komst í dagvistun eða inn á leikskóla svo við getum snúið aftur til vinnu er erfið staða fyrir alla, bæði okkur foreldra og okkar vinnuveitendur. Sumir eru í þeirri erfiðu stöðu að þurfa að segja upp sínu starfi að loknu fæðingarorlofi þar sem engin úrræði eru í boði. Í okkar huga er þetta fullkomlega óboðleg staða fyrir barnafjölskyldur í bænum.
Ég, ásamt öðrum foreldrum í fæðingarorlofi hvet því alla bæjarfulltrúa að taka málið til skoðunar strax. Mikilvægt er að finna lausnir sem henta foreldrum núna, einnig vantar lausnir til framtíðar og skapa þannig barnafjö lskyldum í bænum viðeigandi úrræði og atvinnuöryggi.
Barnafjölskyldur í bænum eiga betra skilið en endalausa bið eftir fyrstu skóflustungunni.

Sigþrúður Margét Gunnsteinsdóttir.
Helgi Hjartarson                                            Elísabet Traustadóttir
Einar Ægir Hlynsson                                       Svanfríður G. Bergvinsdóttir
Steinar Bjarki Marinósson                               Helga Þuríður Hlynsdóttir Hafberg
Birgir Loftur Bjarnason                                   Guðbjörg Ebba Högnadóttir
Einar Ási Guðmundsson                                  Arna Lind Heimisdóttir
Salmar Már Salmarsson                                  Helga Guðrún Gunnarsdóttir
Vilhelm Þór Harðarson                                    Vigdís Pála Halldórsdóttir
Óli Björn Vilhjálmsson                                    Agnes Kristín H. Aspelund                            Sigríður Halla Halldórsdóttir
Víðir Ísfeld Ingþórsson                                    Helga Sigríður Hjálmarsdóttir
Orri Sverrisson                                               Ólöf Erna Guðbjarnadóttir
Heiðar Smári Haraldsson                                 Anna Soffía Sigurlaugsdóttir
Vésteinn Már Rúnarsson                                  Marta Sif Ólafsdóttir
Andri Pétur Þrastarson                                    Janina Magdalena Kryszewska
Davíð H Barðason                                           Hólmfríður Bóasdóttir
Kristján Óskar Ásvaldsson                               Klaudia Patrycja Perzanowska
Łukasz Janusz Pająk                                       Viktoría Lein Guðmundsdóttir
Jónína Guðrún Rósmundsdóttir                        Halldór Gunnar Pálsson
Sólveig Erlingsdóttir                                        Halldór Karl Valsson
Sigríður Halla Halldórsdótir                              Högni Gunnar Pétursson
Ingigerður Bergvinsdóttir                                 Lúkas Breki Larsen
Ólafía Sif Magnúsdóttir                                    Magnús Þór Heimisson
Hjördís Ósk Harðardóttir                                  Egill Halldórsson
Birna Jónasdóttir                                             Henný Þrastardóttir
Stigur Berg Sophusson                                    Saga Rut Hrafnhildardóttir
Benedikt Páll Jónsson                                      Elżbieta Duczek
Sebastian Krzempek                                       Guðbjörg Svandís Þrastardóttir
Daniel Osafo-Badu                                          Magdalena Litwicka
Karol Iwanicki                                                Ragnhildur Inga Sörensen Sveinsdóttir
Baldur Smári Ólafsson

 

Fyrirsögn er blaðsins.

DEILA