Upplýsingar umheildartekjur og gjöld af veiði í ám og vötnum, sem er einkum af stangveiði, liggja ekki á lausu. Þrjár heimildir virðast vera til sem gefa mat á tekjurnar.
Í ársskýrslu Veiðimálstofnunar 2013 segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri að beinar tekjur veiðifélaga af stangveiði sé hátt á annan milljarð króna.
Hagfræðstofnun Háskóla Íslands gerði 2004 skýrslu um efnahagsleg áhrif af lax- og silungsveiði er byggt á upplýsingum frá 65 veiðifélögum af 180. Á vegum þessara 65 félaga voru um 68% af laxveiðinni. Í skýrslunni eru sölu- og leigutekjur veiðifélaganna árið 2003 taldar vera á bilinu 868 – 961 milljónir króna á ári og þar af hagnaður þeirra á bilinu 500 – 600 milljónir króna. Framreiknað til verðlags í dag jafngildir það 1,7 – 1,9 milljörðum króna á ári í tekjur og hagnaðurinn framreiknaður er þá 970 -1.160 milljónir króna.
Þriðja vísbendingin er í tekjum til Fiskræktarsjóðs. Veiðiréttarhafar skulu greiða til Fiskræktarsjóðs 2% gjald af hreinum tekjum af veiði í ám og vötnum á hverju almanaksári eða 2% af greiddum arði. Hreinar tekjur eru skilgreindar sem tekjur að frádregnum útgjöldum. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu var gjaldstofninn fyrir árið 2016 aðeins 706 milljónir króna, nær eingöngu arðgreiðslur þar sem hreinar tekjur veiðifélaganna voru nánast engar.
Ef arðgreiðslurnar eru góð vísbending um hagnað af lax- og silungsveiðinni árið 2016 þá hefur afkoman versnað frá 2004 um þriðjung. Sé ennfremur gert ráð fyrir að hagnaðurinn 2016 sé sama hlutfall af heildartekjum 2003, þá fæst að þær hafa verið um 1.2 milljarðar króna framreiknað til verðlags í dag.
Beinar tekjur af lax- og silungsveiði eru vel innan við 2 milljarðar króna á ári í öllum þremur nálgunum. Beinar tekjur af laxeldi eru útflutningsverðmætin og þau voru á síðasta ári 10 milljarðar króna. Mat á óbeinum og afleiddum áhrifum er mjög ólíkt og eru þau metin miklu meiri í tilviki lax- og silungsveiðinnar en af laxeldinu, en þar þarf að athuga hvort notaðar eru ólíkar matsaðferðir.