Beðið eftir úrskurðarnefnd

Kristian Matthíasson.

Bæði Arnarlax og Arctic Fish  bíða eftir viðbrögðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um frestun réttaráhrifa af 4 úrskurðum nefndarinnar þar sem bæði starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrirtækjanna voru felld úr gildi fyrir 17.500 tonna laxeldi í sjó í Patreksfirði og Tálknafirði. Kristian Matthíasson, framkvæmdastjóri hjá Arnarlax  vísaði til þess og sagði að forsvarsmenn fyrirtækisins myndu ekki tjá sig fyrr en að úrskurðarnefndin hefði afgreitt erindi fyrirtækjanna. Búist er við úrskurði í dag. Shiran Þórisson, framkvæmdastjóri  hjá Arctic Fish tók í sama streng.

Fiskeldisfyrirtæki þurfa umtalsverð rekstrarlán meðan verð er að byggja upp lífmassa  og bankastofnanir hafa að öllu jöfnun tryggt sér heimild til þess að gjaldfella lánin sé það nauðsynlegt að mati bankans. Því getur afturköllun rekstrar- og starfleyfa haft alvarleg áhrif.

Í lögum um úrskurðarnefndina segir að úrskurðir nefndarinnar séu fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi. Þá segir að nefndin sé sjálfstæð í störfum sínum. Lögin voru sett 2011 og tóku gildi 1. janúar 2012.

Í lögunum er kveðið á um að ráðherra  setji í reglugerð nánari ákvæði um úrskurðarnefndina, þ.m.t. um verkefni hennar, valdsvið og starfsskilyrði.  Ráðherra er enn fremur heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar, þ.m.t. heimildir til að sameina mál og úrskurða um mál með einföldum og skilvirkum hætti með vísan til fyrri fordæma og frestun réttaráhrifa.

Reglugerðin virðist ekki hafa verið sett.

DEILA