Beðið eftir Reykhólahreppi

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Eftir að Vegagerð ríkisins skilaði af sér skýrslu um þá valkosti í vegagerð í Gufudalssveit, það er um R leiðina og stytta jarðgangaleið, sem sveitarstjórn Reykhólahrepps óskaði eftir í vor er beðið eftir viðbrögðum sveitarstjórnar Reykhólahrepps.

Alþingismenn Norðvesturkjördæmis hittust í gær og fengu til sín forsvarsmenn Vegagerðarinnar, Bergþóru Þorkelsdóttur, vegamálastjóra og Magnús Val Jóhannsson, framkvæmdastjóra mannvirkjasviðs. Gerðu þau þingmönnum grein fyrir skýrslunni og niðurstöðum hennar. Þá var einnig rætt við Tryggva Harðarson, sveitarstjóra og hann upplýsti þingmenn um áform sveitarfélagsins um fundi með Vegagerðinni og Skipulagsstofnun eftir helgi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm. sagði eðlilegt væri að gefa Reykhólahreppi svigrúm og að þingmenn vildu taka tillit til þess, en hins vegar þyrfti ákvörðun að liggja fyrir fljótt. hver dagur væri dýr sem framhald málsins tefðist. Hún sagði að Þ-H leiðin væri sú eina sem sér sýndist að kæmi til greina. Sú leið væri fullgengin í gegnum kæruferli og það ætti bara eftir að taka lokaákvörðun í hreppsnefndinni, sagði Halla Signý Kristjánsdóttir.

Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni sagðist ekkert hafa heyrt frá heimamönnum og að á þessu stigi væri beðið eftir viðbrögðum sveitarstjórnar Reykhólahrepps.

DEILA