Auðlindaarður í norsku laxeldi

Þórólfur Matthíasson, prófessor.

Mikið hefur verið fjallað um umfang auð­lindaarðs (grunn­rentu) í norsku lax­eldi, bæði á póli­tískum og fag­legum grund­velli. Umfjöll­unin hefur einnig tekið til þess hverjir njóta auð­lindaarðs­ins. Auð­lindaarður er skil­greindur sem sá umfram­hagn­aður sem verður til við nýt­ing nátt­úru­auð­lindar sam­an­borið við sam­bæri­lega nýt­ingu vinnu­afls og fjár­muna ann­ars staðar í hag­kerf­inu. Auð­lindaarður getur komið fram sem afnota­gjald fyrir nýt­ingu auð­lind­ar, í hagn­að­ar­tölum fyr­ir­tækja, í «yf­ir­borg­un­um» til laun­þega eða fjár­magns­eig­enda. Einnig eru dæmi um að auð­lindaarði sé sóað í ofsókn eða offjár­fest­ingu. Sam­kvæmt blaða­fréttum ræðir Atvinnu­vega­nefnd Stór­þings­ins um þessar mundir að leggja fram­leiðslu­gjald sem nemur um 5 krónum íslenskum (0,35 NOK) á hvert kíló af fiski sem slátrað er, til þess m.a. til þess að taka til sam­fé­lags­ins hluta af þeim arði sem nátt­úran skap­ar.

Í Nor­egi eru olíu- og gasvinnsla, fram­leiðsla raf­orku með vatns­orku og fiski­stofnar í sjó dæmi um aðrar atvinnu­greinar sem eru upp­spretta auð­lind­arentu. Því er stundum haldið fram að aðstaða til kvía­eldis sé ekki «heppn­is­feng­ur» á borð við olíu eða gaslindir í jörðu, vatns­afl eða villta fiski­stofna. Við erum ekki fylli­lega sam­mála því. Ástæða þess mikla umfram­hagn­aðar sem er til staðar í fisk­eldi teng­ist tak­mörk­unum á svæðum sem nota má undir kví­ar. Þessar tak­mark­anir ráð­ast bæði af opin­berri stefnu­mörkun og tak­mark­aðri burð­ar­getu nátt­úr­unn­ar. Að fá rétt til að nýta þessi tak­mörk­uðu gæði og þar með rétt­inn til að fram­leiða lax, bleikju og sil­ung við strönd­ina getur gefið betri arð en væri fjár­fest í öðrum atvinnu­grein­um. Fisk­eldið nýtir sam­eig­in­lega auð­lind, súr­efn­is­ríkan sjó. Fram­leiðsl­unni fylgir mengun í formi sleppi­laxs, líf­ræns úrgangs við og undir kví­unum og dreif­ing laxalúsar og lyfja­leifa.

Góð stjórn­sýsla og góð stjórnun eykur ávinn­ing

Auð­lindaarður verður óþarf­lega lít­ill ef ekki er komið í veg fyrir ofsókn og offjár­fest­ingu með skil­virkri og vand­aðri stjórn­sýslu og stjórn­un. Sam­tök olíu­fram­leiðslu­ríkja (OPEC) hafa með sam­þykktum sínum dregið úr olíu­fram­leiðslu og þannig unnið að því að auka auð­lindaarð í þeirri fram­leiðslu. Sama á við í sjáv­ar­út­vegi þar sem tak­mörkun sókn­ar­getu fiski­skipa­flota ein­stakra landa hefur aukið hagnað í sjáv­ar­út­veg­i.

Nefna ber að tvær stórar nefndir á vegum rík­is­stjórnar Nor­egs hafa bent á að stað­bundnar eða óhreyf­an­legar auð­lindir á borð við olíu, gas og fiski­stofna séu heppi­legri skatt­stofnar en hreyf­an­legar auð­lindir (vinnu­afl og fjár­magn). Ann­ars vegar er um að ræða nefnd sem kennd er við for­mann sinn Hans Hen­rik Scheel, fram­kvæmda­stjóra Norsku hag­stof­unnar. Sú nefnd fjall­aði um skatt­lagn­ingu fyr­ir­tækja. Hins vegar nefnd kennd við Arild O. Eides­en, dóm­ara sem fjall­aði um stýr­ingu veiða með kvót­um.

Auð­lindaarður í norsku fisk­eldi

Nauð­syn­leg for­senda skyn­sam­legrar umræðu um gjald­töku af fisk­eldi er að ákvarða hvernig hægt er að reikna út umfang auð­lindaarðs­ins í grein­inni og tal­festa þá stærð. Fiski­stofan norska (Fisker­i­di­rekt­ora­tet) birtir fjár­hags­legar og aðrar tölu­legar upp­lýs­ingar um fisk­eldi árlega.

Við gerð þess­arar greinar höfðum við haft aðgang að gögnum um afkomu fisk­eldis á árinu 2016. Við notum sama líkan og við höfum áður notað til að reikna út auð­lindaarð í sjáv­ar­út­vegi í Nor­egi og á Íslandi. Þeir útreikn­ingar eru birtir í alþjóð­legu fag­tíma­riti, Mar­ine Reso­urce Economics (2017). Í þessu lík­ani tökum við útgangs­punkt í rekstr­ar­hag­fræði­legu hug­taki (hagn­aður fyrir skatt, Earn­ings Before Tax, EBT). Það hug­tak er útgangs­punktur útreikn­inga okk­ar. Hug­takið hagn­aður fyrir skatt fellur ekki að öllu leyti saman við auð­lindaarðs­hug­tak­ið. Með nauð­syn­legum leið­rétt­ingum er engu að síður hægt að reikna út umfang auð­lindaarðs­ins. Hagn­aður fyrir skatt er sá hluti rekstr­ar­hagn­aðar sem rennur til eig­enda áður en skattur er greidd­ur.

Til að finna hversu mikil umfram­arð­semin er þarf að taka til­lit til vaxta­kostn­aðar eigin fjár sem bundið er í rekstr­in­um. Í Nor­egi er not­ast stjórn­völd við þjóð­hags­lega raun-­á­vöxt­un­ar­kröfu (Social Discount Rate) upp á 4%. Við not­umst við þá vaxta­kröfu gagn­vart eig­infé fisk­eld­is­fyr­ir­tækj­anna. Þar með er búið að reikna öllum aðilum sem koma að fram­leiðsl­unni rétt­láta greiðslu fyrir sitt fram­lag.

Þó þarf að taka til­lit til þess að sum fisk­eld­is­fyr­ir­tæki hafa keypt rétt­inn til að stað­setja kvíar sínar þar sem þær eru af öðrum fyr­ir­tækj­um, sem upp­haf­lega fengu rétt­inn afhentan end­ur­gjalds­laust. Þau fyr­ir­tæki sem þannig hafa keypt fram­leiðslu­rétt af öðrum fisk­eld­is­fyr­ir­tækjum færa þann rétt í efna­hags­reikn­ing sinn undir lið­inn óefn­is­legar eign­ir. Þessi kaup kalla fram fjár­magns­kostnað hjá kaup­endum sem þeir eðli­lega hafa dregið fram sem kostn­að­ar­lið þegar þeir reikn­uðu út hagnað sinn (EBT). Til­svar­andi upp­hæð fjár­magnstekna koma að sjálf­sögðu fram hjá þeim aðilum sem seldu fram­leiðslu­rétt­inn. En þeir aðil­ar, fyrr­ver­andi eig­endur fram­leiðslu­rétt­ar, eru ekki í sam­an­tekt Fiski­stof­unnar um EBT hagnað sem við not­umst við. Fyrir þessu þarf að leið­rétta svo auð­lindaarður í grein­inni verði rétt reikn­að­ur. Við gerum það.

Auð­lindaarður í norsku fisk­eldi er sam­kvæmt útreikn­ingi okkar 360 millj­arðar íslenskra króna árið 2016 (25,5 millj­arðar NOK). Það svarar til tæp­lega 260 íslenskra króna (18,22 NOK) á hvert kíló af slátr­uðum laxi og sil­ungi það ár. Nið­ur­staðan getur rokkað til ár frá ári þar sem tekjur og útgjöld ráð­ast af breyti­legi verði bæði aðfanga og afurða. Ef við not­uðum aðra ávöxt­un­ar­kröfu en 4% myndi það hafa tals­verð áhrif á nið­ur­stöð­una. Sömu­leiðis skiptir miklu hvernig sam­keppn­is­staðan er á afurða­mark­aðn­um. Þegar fram­leiðsla í lax­eldi í Síle dróst saman vegna umfangs­mik­illa sjúk­dómsvand­ræða stór­batn­aði staða norskra útflytj­enda.

Greitt fyrir frek­ari vöxt grein­ar­innar í Nor­egi

Reynslurök og fræðirök hníga til þess að mikil aukn­ing norskrar fram­leiðslu á eld­is­laxi muni valda verð­lækkun á helstu mark­aðs­svæð­um. Stjórn­völd hafa engu að síður ákveðið að heim­ila frek­ari vöxt grein­ar­inn­ar, þó þannig að leyf­is­hafar greiði fyrir ný eld­is­leyfi og fyrir við­bætur við fyrri heim­ild­ir. Fjár­munir sem þannig er aflað renna í sér­stakan Kvía­eld­is­sjóð. Að loknu upp­boði á nýjum eld­is­leyfum og stækk­unum sum­arið 2018 munu 25,5 millj­arðar íslenskra króna renna til 160 sveit­ar­fé­laga. Líta má á þessar greiðslur auk 5 krónu fram­leiðslu­gjalds­ins sem Atvinnu­vega­nefnd er með til athug­unar sem skatt á auð­lindaarð sem nátt­úra og atvinnu­greinin skapa.

Frá hag­fræði­legu sjón­ar­miði er mögu­legt að hækka fram­leiðslu­gjaldið umtals­vert. Fimm krónur svarar til tveggja pró­senta af auð­lindaarði sem verður til við fram­leiðslu hvers kílós af slát­ur­laxi. Er skyn­sam­legt að auka þessa skatt­lagn­ingu? Það er spurn­ing sem Stór­þing og rík­is­stjórn eru kosin til að svara og verða að svara. Það verður áhuga­vert að fylgj­ast með hver nið­ur­staða þeirra varð­andi skatt­lagn­ingu fisk­eldis verð­ur.

Þórólfur Matth­í­as­son er pró­fessor í hag­fræði við Háskóla Íslands­. Ola Flåten og Knut Heen eru báðir pró­fess­orar emeriti við Heim­skauta­há­skóla Nor­egs, Trom­sö.

Olaf Flåten, professor emeritus.
Þórólfur Matthíasson, prófessor.
Knut Heen, professor emeritus.
DEILA