Að lokinni afmælishelgi.

Steinþór Kristjánsson, formaður Tónlistarfélags Ísafjarðar.

Fyirr rúmlega ári síðan kom að máli við mig vinur minn Jón Páll Hreinsson þáverandi formaður Tónlistarfélags Ísafjarðar og spurði mig bljúgur hvort hann mætti stinga upp á mér sem formanni á komandi aðalfundi félag

Frá 70 ára afmælishátíðahöldum Tónlistarfélags Ísfirðinga. Mynd: Þorsteinn Tómasson.

sins. Bænarglampinn í augum hans gaf til kynna að fráfarandi formaður væri ekkert of bjartsýnn á að einhver vildi taka þetta að sér.  Ég hugsaði mig um í smá stund og sló svo til honum til mikils léttis. Ég hef reyndar átt það til í gegnum tíðina að vera það sem kalla má félagsskítur og jafnvel félagsbani þar sem ég hneygist lítt til funda og ræðuhalda. Enn lifir félagið og hafa verið haldnir margir fundir og áhugi allra stjórnarmanna til fyrirmyndar. Það er tilhlökkunarefni að mæta á fund í Tónlistarfélaginu og í því aukastarfi sem því fylgir, formennsku í Tónlistarskólanum er ánægjan sú sama.  Það er einhver sérstök tilfinning að koma niður í Tónlistarskóla, fá sér kaffi og ræða það sem til framfara heyrir í skólanum. Í þessari vöggu lista í vorum bæ býr svo mikill kraftur og áhugi alls starfsfólks að einstakt hlýtur að teljast. Og ekki er verra að vera foreldri nemenda í skólanum því þar er einnig á öllum sviðum augljós fagmennska og aldrei slegið slöku við í kröfum til nemenda og til okkar foreldra um að halda börnunum við efnið þegar heim er komið.

Ég er ekki það sem kalla má fagmaður í tónlist þó ég hafi komið víða við í þeim efnum í gegnum tíðina. Spilað í hljómsveit, lagt stund á söng og bassanám. Get glamrað á hin ýmsu hljóðfæri  ef ég neyðist. Áhugi á klassískri tónlist hefur þó alltaf verið sterkur. Tónlistarfélagið heldur uppi öflugu menningarstarfi með tónleikahaldi og heldur nokkra tónleika á ári hverju. Oftast eru einsöngstónleikar með píanóundirleik, en inn á milli önnur samsetning hljóðfæra og radda. Ég hugsaði sem svo er ég tók að mér formennskuna að nú „neyddist“ ég til að fara á alla þessa tónleika. Fyrir mig, hálfamatörinn hafa þessir tónleikar verið hver öðrum flottari og engin eftirsjá verið að þeim tíma sem fór í þá. Leggur Tónlistarfélagið metnað sinn í það að fá listamenn úr fremstu röð til tónleikahalds. Ég get fullyrt það kæri lesandi að það er enginn svikinn af því að eyða parti úr degi í að njóta flutningsins og ég segi það hér og treysti því að það fari ekki lengra að ég hef meira að segja fellt tár endrum og sinnum þvílík er upplifunin. Að vera félagi í Tónlistarfélaginu kostar 7.500 krónur á ári og eru innifaldir þrír tónleikar á starfsárinu. Tilvalin jólagjöf, ef ekki í gríni, þá í alvöru.

Um síðustu helgi hélt Tónlistarskólinn upp á 70 ára afmæli sitt og var mikið um dýrðir jafnt fyrir huga sem maga. Boðið var upp á ýmis tónlistaratriði auk nokkra ávarpa. Margmenni  var í afmælinu og voru heiðursgestir fráfarandi skólastjóri Sigríður Ragnarsdóttir og maður hennar Jónas Tómasson. Að lokinni afmælisdagskrá voru svo Heimilistónar þar sem fólk opnaði stofur sínar fyirr gestum og gangandi þar sem tónlistarfólk á öllum aldiri hélt tónleika. Opnuð var sýning á ýmsu efni úr sögu skólans. Er hún forsmekkur að veglegu afmælisriti sem til stendur að gefa út í vetur þar sem Arnheiður Steinþórsdóttir sagnfræðinemi mun fara yfir sögu skólans með áherslu á svokallaðan Siggutíma. Hægt er að skrá sig á heillaóskalista á netfanginu afmaelisrit@gmail.com. Fylgir heillaóskinni eintak af ritinu þegar það kemur út, gegn vægu gjaldi.

Afmælis skólans verður minnst með ýmsum hætti út afmælisárið og hvet ég bæjarbúa til að fjölmenna á þá atburði. Það verður enginn svikinn af því. Læt hér fylgja með textann við afmælisgjöf Tónlistarfélagsins til Tónlistarskólans, Í vöggu lista. Lagið er eftir fyrirverandi nemanda við Tónlistarskólann og tónskáld með meiru, Halldór Smárason.

Í faðmi blárra fjalla kátt

Við fögnum sérhvern dag

Við listagyðju leikum dátt

og lærum okkar fag

 

Í vöggu lista í vorum bæ

Með vinnu og ástund þekking næ

Er nýtist líf á enda.

 

Í dagslins amstr´að leggja lið

Það listagyðjan kann

Hún græðir sár og gefur frið

Og gleður sérhvern mann.

 

Í vöggu lista í vorum bæ

Með vinnu og ástund þekking næ

Er nýtist líf á enda.

Steinþór Bjarni Kristjánsson

 

 

 

DEILA