Vinnur að doktorsverkefni um hafnir sem aðlagast mörgum mismunandi verkefnum

Majid Eskafi.

Majid Eskafi vinnur nú að ákaflega spennandi doktorsverkefni á Ísafirði en við Háskóla Íslands. Áður en Majid fór í doktorsnám í HÍ lauk hann meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða svo Ísafjörður er honum ekki ókunnur. Rannsóknin sem hann vinnur að núna fjallar um hafnir sem þróast og aðlagast öllum þeim verkefnum sem þarf að sinna, en í dag þurfa hafnir að geta tekið á móti margskonar fleyum, allt frá fiskandi skipum, fiskeldisskipum, ferðamannabátum og skemmtiferðaskipum, ásamt því að vera stór hluti af sjálfu bæjarfélaginu eins og raunin er á svo mörgum stöðum. Blaðamaður hitti Majid sem sagði svo frá verkefninu:

„Hafnir eru í raun hliðverðir verslunnar og á höfnum er hægt að auka hagvöxt með því að veita grundvallarþjónustu, gera keðjur framboða og skapa störf. Í dag eru hafnir stöðugt háðar alþjóðlegum, tæknilegum, umhverfislegum, félagslegum, lagalegum, pólitískum og efnahagslegum breytingum og nýjum kröfum um þjónustu, rekstur og innviði hafna.“

„Þess vegna þurfa hafnir að vera þróaðar þannig að þar sé öflugt en fljótandi skipulag sem rúmar marga óvissuþætti. Verkefni mitt, sem kallast á ensku Adaptive Port Planning eða APP miðar að því að skipuleggja hafnir þannig að þær séu nógu sveigjanlegar til að mæta hverjum þeim kröfum sem settar eru á hverjum tíma. Þetta skipulag sem ég er að hanna er ekki hugsað til nokkurra ára heldur til framtíðar og þannig að næstu kynslóðir geti auðveldlega breytt, uppfært og aðlagað hafnirnar til að mæta þeirri eftirspurn sem er á hverjum tíma.“

„Varðandi hafnir Ísafjarðarbæjar þá eru þær virkar þegar kemur að fiskveiðum, farmflutningum, tómstundaskipum og smábátum. Þannig hafa hafnirnar mikil áhrif á heildartekjur sveitarfélagsins. Hafnir Ísafjarðarbæjar gegna einnig mikilvægu hlutverki í sjóstarfsemi á innlendum og jafnvel alþjóðlegum vettvangi. Þess vegna þurfa hafnirnar að geta aðlagast og nýtt sér þá möguleika sem eru hverju sinni, til að afmarka afköstin á hverri höfn fyrir sig.“

Majid ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í þessu verkefni. Hann hefur tekið eigindleg viðtöl við 51 hagsmunaaðila hafna, svo sem fulltrúa sveitarfélaga, verslana, stofnanna, fyrirtækja og svo framvegis og framvegis. Hann skoðaði einnig samkeppnishæfni hafna, notkun þeirra, umhverfisáhrif, öryggi og félagsleg áhrif svo fátt eitt sé nefnt, en verkefni af þessu tagi er einstakt á heimsvísu. Verkefnið um Adaptive Port Planning eftir Majid Eskafi hefur líka fengið mikla athylgi út um allan heim en sem dæmi má nefna að á höfninni í Rotterdam hefur þessari aðferðafræði verið beitt með góðum árangri. Þó hafnir Ísafjarðarbæjar séu ekki á sama stærðargráðu þá er virkni hafnanna ekki svo ólík. Sveigjanleiki er lykiorðið þegar kemur að smáum fjölnota höfnum og hafnarþróun og það verður spennandi að fylgjast með Majid og þessu verkefni næstu tvö árin.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA