Vindheimar opnir á nýjan leik

Tálknafjörður. Mynd: Julie Gasiglia.

Félagsheimilið Vindheimar á Tálknafirði opnaði að nýju mánudaginn 3.september síðastliðinn. Kemur fram í tilkynningu á vef Tálknafjarðar að opið verði fyrir heldri borgara (60+) á mánudögum og fimmtudögum frá klukkan 13:00 til 16:30. Umsjónarmaður Vindheima er Berglind Eva Björgvinsdóttir, hægt er að hafa samband við hana í netfangið eva.smaradottir@gmail.com eða í síma 777-6796.

Segir í tilkynningunni að í Vindheimum séu ýmis handverk í boði, hægt sé að spila á spil og eða spjalla um daginn og veðrið. Alltaf er heitt á könnuni og eitthvað með því fyrir 400kr. Svo eru opin hús á þriðjudögum fyrir almenning frá klukkan 11:00 til 16:00. Bent er á að fólki er velkomið að koma með handavinnu sína með sér. Einnig er í boði að taka þátt í Rauða kross verkefninu „Föt Sem Framlag“.

Í því verkefni munu sjálfboðaliðar prjóna og sauma föt sem sett eru í pakka og sendir eru til þeirra sem á þurfa að halda. Undanfarin ár hafa fatapakkarnir verið sendir til Hvíta Rússlands en þar er mikil fátækt og gríðarlegir kuldar. Brugðist er við ef neyð skapast annarsstaðar í heiminum. Fatapakkarnir hafa komið að góðum notum og sér Rauði Krossinn í viðtökulandi um að dreifa pökkunum til þeirra sem á þurfa að halda.

Innihald fatapakkana er valið á þann hátt að það nýtist sem best. Í pökkunum er peysa, buxur, nærfatnaður, sokkar, húfa, teppi, handklæði og lak. Verkefnið „Föt sem framlag“ er starfrækt í mörgum deildum Rauða krossins um land allt. Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í verkefninu þá geturðu haft samband við Rauða kross deildina í þínu sveitarfélagi.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA